Einkenni krabbameins fara oft óséð

Að mati Árna getur rannsóknin hugsanlega bjargað mannslífum ef rétt …
Að mati Árna getur rannsóknin hugsanlega bjargað mannslífum ef rétt er brugðist við. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir sem skoða röntgenmyndir eða sneiðmyndir missa oft af einkennum sjúkdóma á borð við krabbamein í heila eða brjóstum, en kerfisbundnar skynjunarvillur geta komið fram hjá þeim sem skoða reglulega röntgen- eða sneiðmyndir, til dæmis vegna gruns um ýmiss konar krabbamein. 

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Árni Kristjánsson, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands, hefur leitt ásamt þeim Mauro Manassi og David Whitney við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Niðurstaða rannsóknarinnar var birt í vísindatímaritinu Nature Scientific Reports sem gefið var út núna í vikunni. 

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu hafa vísindamennirnir sjálfir hugmyndir um hvernig unnt er að bæta verklag við slíkar skoðanir. 

„Í rannsókn okkar veltum við fyrir okkur hvort eitthvað í sjónskynferlinu sjálfu gæti skýrt mannleg mistök. Við höfum áður staðfest að það sem fólk hefur séð áður getur bjagað skynjunina á því sem það sér síðan í framhaldinu, svokölluð raðáhrif í skynjun,“ segir Árni Kristjánsson prófessor. 

Árni Kristjánsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Árni Kristjánsson, prófessor við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Árni segir að niðurstöðurnar sýni ótvírætt að raðáhrif geti skekkt skynjun fólks á áreitum sem líkjast röntgenmyndum og þannig haft bein áhrif á niðurstöður úr athugunum. „Við veltum einnig upp spurningum í rannsókninni hvort áreiti af þessu tagi geti haft áhrif á skynjun þeirra sem leita að vopnum eða öðrum hættulegum hlutum á flugvöllum.“

Hann segir að því miður sé mjög algengt að niðurstöður í röntgen- og sneiðmyndarannsóknum séu ekki túlkaðar á réttan hátt. „Mælingar benda til að um 20% brjóstakrabbameina fari fram hjá þeim sem skoða myndir vegna gruns um slík mein.“ Á svipaðan hátt sé algengt að hættulegir hlutir sleppi í gegnum skoðun á flugvöllum. 

mbl.is