Sólnánd var í morgun

Sólin sest hér bak við Snæfellsjökul. Mynd frá því í …
Sólin sest hér bak við Snæfellsjökul. Mynd frá því í sumar, er hún var öllu fjær okkur en nú. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er kannski ekki margt sem gefur það til kynna þegar horft er út um gluggann þessa stundina, en í dag er sá dagur ársins sem jörðin er næst sólu á sporbaug sínum. Það var því sólnánd í dag, en úr grísku kallast þessi viðburður í gangverki himintunglanna perihelion.

Þegar jörðin komst næst sólinni kl. 7:48 morgun að íslenskum tíma var hún 147.091.143 og rúmlega hálfum kílómetra til viðbótar frá sólinni. Rúmlega 147 milljónir kílómetra.

Nú heldur jörðin svo áfram hringinn og færist sífellt fjær sólinni þangað til kl. 11:35 að íslenskum tíma 4. júlí næstkomandi, en þá nær fjarlægðin á milli jarðar og sólar hámarki er jörðin verður rúmlega 152 milljónum kílómetrum frá brennheitri sólinni. Sá atburður kallast sólfirrð, eða aphelion.

Orðið „perihelion“ kemur frá grísku orðunum „peri“ sem þýðir nálægt og „helios“ sem þýðir sólin. Orðið „aphelion“ er dregið af orðinu „apo“ sem þýðir „burtu“ eða „frá“, samkvæmt því sem segir á Stjörnufræðivefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert