Rannsóknasjóður úthlutar 762 milljónum króna

Hlutverk sjóðsins er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á …
Hlutverk sjóðsins er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á Íslandi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Stjórn Rannsóknasjóðs hefur úthlutað samtals 762 milljónum króna til 55 nýrra rannsóknaverkefna, sem almennt eru til þriggja ára. Þá fara 1.700 milljónir króna til eldri verkefna í ár, en fram kemur í fréttatilkynningu frá sjóðnum að fjárframlög til hans hafi verið óbreytt síðustu fjögur ár, eða um 2,5 milljarðar króna.

Sjóðurinn er rekinn fyrir almannafé og starfar samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Hlutverk hans er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á Íslandi. Sjö manna fagráð, auk ytri matsmanna, meta umsóknir í sjóðinn, en stjórn sjóðsins tekur endanlega ákvörðun um styrkveitingar.

14% úthlutunarhlutfall

Í fréttatilkynningu frá sjóðnum vegna úthlutunar ársins segir að alls hafi borist 381 umsókn í sjóðinn, fleiri en þær voru á síðasta ári. Því styrkir sjóðurinn um 14% þeirra sem sóttu um.

Sjóðurinn styrkir verkefni á öllum sviðum vísinda, allt frá styrkjum til doktorsnema til svokallaðra öndvegisstyrkja, sem eru veittir til stórra verkefna sem skara fram úr á sínu sviði og hafa alþjóðlega tengingu. Hver öndvegisstyrkur er alls um 150 milljónir króna til þriggja ára.

Tveir öndvegisstyrkir voru veittir að þessu sinni:

Kerfisbundin hönnun á rafefnahvötum fyrir sértæka afoxun CO2 í vistvænt eldsneyti,verkefnisstjóri er Hannes Jónsson, verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands.

Fiskveiðar til framtíðar, verkefnisstjórar eru Erla Sturludóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands og Gunnar Stefánsson, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.

Lista yfir úthlutunina og nánari upplýsingar má finna á vef Rannís

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert