Attenborough varar við hættuástandi

Sir David Attenborough varar við hættuástandi í baráttunni gegn loftslagsvánni.
Sir David Attenborough varar við hættuástandi í baráttunni gegn loftslagsvánni. AFP

Sir David Attenborough, náttúrulífssjónvarpsmaðurinn heimsþekkti, varar við hættuástandi í baráttunni gegn loftslagsvánni. „Við höfum verið að fresta hlutum ár eftir ár, nú blasir við hættuástand,“ segir Attenborough, og nefnir hann gróðureldana í Ástralíu sem dæmi. 

„Í þessum töluðu orðum brennur Ástralía. Af hverju? Af því að hitastig jarðar er að aukast,“ segir Attenborough í viðtali við fréttamann breska ríkisútvarpsins. 

Síðastliðinn ára­tug­ur hef­ur verið sá heit­asti til þessa sam­kvæmt skráðum heim­ild­um. Sam­einuðu þjóðirn­ar greindu frá þessu í dag og vöruðu við því að bú­ist væri við því að hærra hita­stig myndi stuðla að öfg­um í veðurfari á þessu ári og næstu árum.

Loftslagsmál voru fyrirferðarmikil á síðasta ári og ljóst er að raunin verður sú sama í ár. Lít­ill sam­hljóm­ur var á lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna, COP25, sem fram fór í  Madríd í lok síðasta árs. Á ráðstefn­unni hitt­ust full­trú­ar næst­um 200 landa til að ljúka við inn­leiðingu Par­ís­arsátt­mál­ans frá ár­inu 2001 en vegna mis­mun­andi hags­muna þjóða náðist ekki sam­komu­lag, þrátt fyr­ir að víða hafi verið kraf­ist aðgerða. 

Næsta loftslagsráðstefna SÞ fer fram í Glasgow í nóvember. Attenborough segir að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða strax. „Við höfum verið að fresta markmiðum og segja: „Jæja, ef við gerum þetta innan tuttugu ára…“ Hættuástandið er til staðar. Við getum ekki lengur verið með undanbrögð,“ segir sir David Attenborough.

mbl.is