Lítið örplast í íslensku drykkjarvatni

Miðað við allan heiminn er lítið örplast í íslensku drykkjarvatni.
Miðað við allan heiminn er lítið örplast í íslensku drykkjarvatni. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vitum að örplast fyrirfinnst nánast alls staðar í nútímaumhverfi, en niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að magn þess sé ekki hátt í íslensku drykkjarvatni,“ sagði Jamie McQuilkin, verkefnastjóri hjá ReSource International ehf. Niðurstöður rannsóknar sem fyrirtækið fór fyrir voru af Norðurorku, Veitum og HS Orku kynntar í dag, en rannsakað var magn örplasts í drykkjarvatni í borholum, dreifikerfi og geymslutönkum fyrirtækjanna. 

Í tilkynningu segir að örplast hafi greinst í helmingi af mælipunktum dreifikerfisins og í innan við helmingi af borholum og geymslutönkum. Miðgildi þeirra sýna sem tekin voru sýndi um það bil eina ögn af örplasti í hverjum 10 lítrum af vatni. Aftur á móti hafi fundist um 50 agnir af örplasti í hverjum tíu lítrum af vatni í annarri stórri rannsókn frá 2018 þar sem athugað var kranavatn um allan heim. 

Virðist ekki hafa áhrif

Örplast eru plastagnir sem eru minni 5 millimetrar á allar hliðar. Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá ágúst 2019 kom fram að þrátt fyrir að núverandi upplýsingar væru takmarkaðar, sérstaklega fyrir mjög smáar örplastagnir, væru „engar vísbendingar sem benda til áhrifa á heilsu manna,“ vegna örplasts í drykkjarvatni. Að auki benda tiltæk gögn á að plastinnihald flöskuvatns sé hærra en í kranavatni, líklega að hluta til vegna umbúða þess. Frekari rannsókna er þó þörf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert