Smásaga í snjalltæki

Smáforritið Smásaga frá Origo gefur heilbrigðisstarfsfólki möguleika á að skrá sjúkragögn í gegnum snjalltæki. 

„Flest sjúkragögn eru á stafrænu formi en þó er enn verið að skrá sjúkragögn á pappír í einhverjum tilfella. Á legudeildum og í heimahjúkrun skráir starfsfólk hjá sér ýmsa þætti, svo sem framvindu meðferða og mælingar sem eru prentaðar út og skráðar í Sögu sjúkraskrá. Þessi aðferð getur orðið til þess að gögn séu ranglega skráð, þau tvískráð eða þau geta einfaldlega glatast,“ segir Guðjón Vilhjálmsson, forstöðumaður heilbrigðislausna hjá Origo, í fréttatilkynningu.

Með Smásögu getur heilbrigðisstarfsfólk skráð gögn og myndir beint inn í Sögu á rauntíma. Þar er hægt að skoða viðeigandi sjúkragögn, skrá mælingar, framvindu meðferða og borið saman við fyrri gögn. Einnig er hægt að taka myndir af áverkum og sárum, skjölum eða myndir af sjúklingum og senda þær beint í Sögu án þess að tæki geymi myndirnar eða önnur viðkvæm gögn samkvæmt tilkynningu.

mbl.is