Aftengdu 7 sprengjur á framkvæmdasvæði Tesla

Tesla ákvað í síðustu viku að ganga frá kaupum á …
Tesla ákvað í síðustu viku að ganga frá kaupum á 300 hektara landi í Gruenheide, austur af Berlín, fyrir tæplega 41 milljón evra. AFP

Sprengjusérfræðingar innan þýsku lögreglunnar aftengdu í dag sjö sprengjur frá síðari heimsstyrjöldinni, sem fundust á framkvæmdasvæði utan við Berlín þar sem til stendur að reisa bifreiðaverksmiðju Tesla.

Að sögn talsmanns lögreglunnar gekk aftenging sprengjanna hnökralaust fyrir sig, en þær munu hafa verið litlar sprengjur sem Bandaríkjaher varpaði á tímum heimsstyrjaldarinnar.

75 ár eru liðin frá stríðslokum, en enn liggur fjöldi ósprunginna sprengja í þýskum jarðvegi. Þær finnast gjarnan við byggingarvinnu.

Tesla ákvað í síðustu viku að ganga frá kaupum á 300 hektara landi í Grünheide, austur af Berlín, fyrir tæpa 41 milljón evra, en þar mun fyrsta risaverksmiðja Tesla á evrópskri grundu rísa.

Til stendur að þar hefjist framleisðla á Tesla Model 3 SUV og sedan, jafnvel strax á næsta ári. Framleiðslugeta verksmiðjunnar verður hálf milljón bifreiða á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert