Nýtt lyf við hnetuofnæmi í Bandaríkjunum

Hnetur.
Hnetur. AFP

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur samþykkt notkun nýs lyfs við hnetuofnæmi í börnum.

Lyfið heitir AR101, eða Palforzia, og inniheldur hnetuprótein í duftformi sem er sett í litlum skömmtum í mat barna á sex mánaða tímabili, að því er BBC greindi frá. 

Að því loknu þurfa börnin að taka daglegan skammt til að geta þolað það að borða hnetur fyrir slysni.

Ekki er um lækningu við hnetuofnæmi að ræða og vara þeir sem bjuggu lyfið til við því að enn er hætta á banvænum ofnæmisviðbrögðum við hnetum. Foreldrar þurfi að halda áfram að koma í veg fyrir að börn með hnetuofnæmi borði hnetur.

Hnetuofnæmi er algengasta matarofnæmið í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert