Váboðakerfi Neyðarlínunnar uppfært og tilbúið um mitt ár

Um mitt ár 2022 verður það skylt samkvæmt lögum að …
Um mitt ár 2022 verður það skylt samkvæmt lögum að fjarskiptafélög sendi út váboð til þeirra sem þess þurfa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reiknað er með að váboðakerfi Neyðarlínunnar í samvinnu við íslensku símafélögin verði komið í fulla keyrslu um mitt þetta ár, en það er tveimur árum fyrr en lagaskylda um að slíkt kerfi verið tilbúið kveður á um.

Kerfið, sem Neyðarlínan fjárfesti í fyrir tveimur árum, hefur verið í þróun í samvinnu við símafélögin, en með því er hægt að senda sms til allra þeirra sem eru innan tiltekinna svæða, að því er segir í tilkynningu. 

Eitt það fullkomnasta sem til er

„Þetta váboðunarkerfi er eitt það allra fullkomnasta sem til er og mun í framtíðinni verða okkar besta tæki til að koma skilaboðum til almennings,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, í tilkynningunni. 

mbl.is/Eggert

Þá segir að Neyðarlínan hafi þær skyldur samkvæmt lögum að boða viðbragðsaðila þegar þörf er á og hafi í samráði við fjarskiptafélögin sent sms til þeirra eftir fyrirfram ákveðnum viðbragðsáætlunum og hefur það fyrirkomulag reynst afar vel.  

Váboðakerfið, sem nái til íbúa og raunar allra þeirra sem staddir séu á ákveðnum svæðum, sé í dag keyrt á tveimur kerfum og hafi hið nýrra verið í fyrsta skipti ræst í tengslum við landris í kringum Grindavík. 

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.
Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. mbl.is/RAX

Tæknilausnir háðar því að fólk hafi kveikt á símum sínum

„Tæknilausnir á borð við þessa eru hins vegar háðar því að fólk hafi kveikt á símum sínum og þeir séu meðferðis. Öll heimsins tækni minnkar þó aldrei mikilvægi þess að við höldum utan um hvert annað með því að vera í sambandi við okkar nánustu, sinnum nágrannskyldu okkar og tryggjum þannig að allir fái nauðsynlegar upplýsingar þegar hætta steðjar að,“ segir Þórhallur ennfremur í tilkynningunn. 

Hann bendir jafnframt á að þegar sms sé sent út í þúsundatali á lítið afmarkað svæði megi alltaf reikna með að nokkrar mínútur líði frá því að fyrsti aðili fái sendingu þar til sá síðasti fái hana.

„Um mitt ár 2022 verður það skylt samkvæmt lögum að fjarskiptafélög sendi út váboð til þeirra sem þess þurfa en eins og áður sagði er reiknað með að kerfið verði komið í fullan rekstur um mitt þetta ár, eða tveimur árum áður en lög kveða á um,“ segir ennfremur. 

mbl.is