Síminn innleiðir rafræn símkort

Tæknin hefur verið til fyrir Apple Watch um nokkurt skeið, …
Tæknin hefur verið til fyrir Apple Watch um nokkurt skeið, en úrin hafa ekki verið seld hérlendis með þeirri tækni. „Það er ákveðin innleiðing sem þarf að eiga sér stað svo hún byrji að virka á Íslandi, úrin sem eru seld hér í dag eru án þessarar tækni.“ AFP

Síminn hefur sett á markað rafræn SIM-kort, svokölluð eSIM-kort, og geta viðskiptavinir símans sem eiga nýlega snjallsíma með þar til gerðri tækni nú losað sig við plastSIM-kortið. Fljótlega verður tæknin svo tekin í notkun fyrir snjallúr.

„Aðalgulrótin verður þegar þetta kemur loksins í snjallúrin,“ segir Guðmundur Jóhannsson, samskiptafulltrúi Símans, í samtali við mbl.is.

Síminn er fyrstur á Íslandi til að innleiða eSIM.
Síminn er fyrstur á Íslandi til að innleiða eSIM. mbl.is/​Hari

eSIM-kort er innbyggt í símtækið og svo parað við viðkomandi símafélag. Síminn er fyrstur til að innleiða þessa tækni á Íslandi og eins og áður segir er fyrst um að ræða innleiðingu fyrir farsíma en fljótlega verður tæknin svo í boði fyrir snjallúr. Að sögn Guðmundar er eSIM-tæknin til staðar í flestum nýlegum símum.

„Þetta er hægt í nokkurra ára gömlum símum, alla vega nýjustu iPhone- og Google-símunum, og þetta er alltaf að bætast í fleiri síma því þetta er í rauninni næsta skref.“

Út að hlaupa með Spotify í úrinu

„Það sem er kannski algengasta notkunin á eSIM fyrir utan þá sem eru með bæði eSIM og venjulegt símkort, t.d. eitt til einkanota og annað frá vinnuveitanda, er að nota það í snjallúrum. Þá getur fólk farið út að hlaupa eða ganga eða hvert sem er án þess að vera með símann á sér, því þá er úrið tengt farsímakerfinu og þangað koma öll símtöl og skilaboð og hægt er að hlusta á Spotify í úrinu án þess að vera með símann.“

Tæknin verður fyrst fáanlega á Íslandi með komu nýja Samsung-snjallúrsins, sem von er á í vor, og svo með nýja Apple-snjallúrinu sem kemur síðar á árinu. Að söng Guðmundar hefur tæknin verið til fyrir Apple Watch um nokkurt skeið, en úrin hafa ekki verið seld hérlendis með þeirri tækni. „Það er ákveðin innleiðing sem þarf að eiga sér stað svo hún byrji að virka á Íslandi, úrin sem eru seld hér í dag eru án þessarar tækni.“

„Þessi tækni er búin að vera að ryðja sér til rúms í síðustu tvö, þrjú ár, en það er lengra síðan hún varð til. Það er fyrst núna sem hún kemur hingað, en það vantaði kannski eitthvað svona hetjutæki til að keyra þetta áfram og það eru snjallúrin.“

mbl.is