Hakkarar og vélmenni í Hörpu í dag

Frá netöryggiskeppni ungmenna í Hörpu í dag.
Frá netöryggiskeppni ungmenna í Hörpu í dag. Mbl.is/Íris

Tíunda UTmessan fór fram í Hörpu nú um helgina, en UTmessan er stærsti viðburður ársins í tölvu- og tæknigeiranum. 

Samkvæmt Arnheiði Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra UT messunnar, var mæting svipuð og síðust ár, á bilinu 10 til 12 þúsund manns. 

„Það var ótrúlega góð stemning. Svona notaleg, róleg stemning. Engin hávaði og allir gátu notið sín,“ segir Arnheiður í samtali við mbl.is.

Í dag sýndu öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins hvað þau hafa fram á að færa og hægt var að heimsækja bása fjölmargra fyrirtækja. Mikið var um sýningar á tækjum og vélmönnum sem börnum gafst færi á að prófa auk þess sem íslenskir tölvuleikir kynntir. 

Þá fór fram í fyrsta sinn hérlendis landskeppni í netöryggi ungmenna þar sem gestum bauðst að fylgjast með upprennandi hökkurum beita aðferðum sem notaðar hafa verið til að brjótast inn í allt frá heimabönkum til flugvéla. 

Samkvæmt Arnheiði voru tæplega 30 ungmenni sem tóku þátt í keppninni sem hófst í gær og lauk í dag, en í yngri flokki var það Kristinn Vikar Jónsson sem sigraði keppnina og í eldri flokki Níels Ingi Jónasson. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra veitti sigurvegurunum verðlaunin. 

Aðeins ein stúlka tók þátt í keppninni í ár.

„Það er bara svolítið lýsandi, að það sé alltaf erfitt að fá stelpur í eitthvað svona. Í tölvugeiranum erum við nú orðnar um 30% konur og maður vill að sjálfsögðu sjá að það haldi áfram, sjá það í svona keppnum. En það er hluti af tilgangi UTmessunnar að sýna að þessi geiri hentar öllum kynjum,“ segir Arnheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert