Útgáfu Facebook Dating frestað í Evrópu

Stefnumótaappið átti að koma út í Evrópu í dag.
Stefnumótaappið átti að koma út í Evrópu í dag. AFP

Facebook hefur frestað því að gefa út evrópsku útgáfuna af stefnumótaappi sínu vegna persónuverndarmála á Írlandi.

„Það er mjög mikilvægt að Facebook Dating verði hleypt af stokkunum á réttan hátt og þess vegna ætlum við að taka okkur aðeins lengri tíma til að sjá til þess að varan verði tilbúin fyrir evrópskan markað,“ sagði í yfirlýsingu samfélagsmiðilsins.

Fram kemur að mikil vinna hafi verið lögð í persónuverndarmál vegna fyrirhugaðrar útgáfu í Evrópu og að þau hafi verið kynnt fyrir írsku stofnuninni IDPC, sem annast persónuverndarmál, þegar óskað var eftir því.

Höfuðstöðvar Facebook í Evrópu eru á Írlandi og því fellur fyrirtækið undir persónuverndarlög landsins.

AFP

Að sögn IDPC frétti stofnunin ekki af fyrirhugaðri útgáfu smáforritsins í Evrópu fyrr en í byrjun þessa mánaðar. „Við höfðum miklar áhyggjur vegna þess að við höfðum ekkert heyrt frá Facebook á Írlandi fyrr en þá um þetta nýja verkefni, sérstaklega vegna þess að þau ætluðu að gefa það út á morgun, 13. febrúar,“ sagði í yfirlýsingu frá IDPC.

Starfsmenn IDPC gerðu rannsókn í höfuðstöðvum Facebook í Dublin síðastliðinn mánudag og söfnuðu gögnum í tengslum við fyrirhugaða útgáfu appsins.

Rannsóknin snýst um að skoða persónuverndarmál samfélagsmiðla og netfyrirtækja en reglur þess efnis tóku gildi í Evrópusambandinu 2018.

Að sögn talsmanns er þetta í fyrsta sinn sem írsk yfirvöld rannsaka stórt tæknifyrirtæki síðan reglurnar tóku gildi. Google og þó nokkur tæknifyrirtæki til viðbótar eru einnig með höfuðstöðvar á Írlandi.

mbl.is