Fjórðungur tísta um loftslagsvá frá þjörkum

Í ljós kom að á meðaldegi á því tímabili sem …
Í ljós kom að á meðaldegi á því tímabili sem skoðað var voru 25% allra tísta sem fjölluðu um loftslagsvánna (e. climate crisis) frá bottum. AFP

Fjórðungur allra færslna sem lúta að loftslagsvánni og hlýnun jarðar á samfélagsmiðlinum Twitter er settur í loftið af sjálfvirkum notendum – svokölluðum „bottum“ eða þjörkum – sem hafa enga manneskju af holdi og blóði að baki sér. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn frá vísindamönnum við Brown-háskóla í Bandaríkjunum sem enn bíður birtingar.

Fjallað er um óbirta rannsóknina á vef breska blaðsins Guardian í dag, en þar segir að rannsakendur hafi farið yfir milljónir tísta sem sett voru í loftið á enskri tungu um það leyti sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að Bandaríkin myndu draga sig frá Parísarsamkomulaginu, 1. júní árið 2017. 

Alls voru 6,5 milljónir tísta greindar með tóli sem heitir Botometer og var hannað við Indiana-háskóla í Bandaríkjunum, en tólið greinir hegðun notenda á Twitter og sker úr um hvort um sé að ræða raunverulegan notanda eða þjark.

Í ljós kom að á meðaldegi á því tímabili sem skoðað var voru 25% allra tísta sem fjölluðu um loftslagsvána (e. climate crisis) frá þjörkum og þjarkarnir voru einnig ábyrgir fyrir 38% allra tísta sem snerust um gervivísindi (e. fake science) auk 28% allra tísta um olíufyrirtækið Exxon. 

Þjarkarnir voru einnig á meðal þeirra notenda sem létu frá sér tíst sem flokka mætti sem loftslags-aktívisma, þar sem stuðningi var lýst yfir við aðgerðir í loftslagsmálum. Þó var hlutfallið ekki jafn hátt í þeim flokki, en einungis um 5% tísta þar sem farið var fram á meiri aðgerðir í loftslagsmálum eru sögð hafa komið frá þjörkum.

AFP

Thomas Marlow, doktorsnemi við Brown-háskóla sem leiddi rannsóknina, segir við Guardian að hún hafi sprottið upp úr vangaveltum hans og annarra um það af hverju það bæri jafn mikið á afneitun vísindalegra staðreynda um loftslagsmál og raun ber vitni, þegar vísindasamfélagið væri svo gott sem einróma á einn veg.

Það kom Marlow á óvart að sjá hversu margir þjarkar tóku þátt í umræðunni um málaflokkinn á Twitter, en rannsakendur náðu ekki að komast að því hvaðan neinum þessara þjarka er stýrt.

mbl.is