Hugrekki er mikilvægur eiginleiki

Hermundur tekur Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem dæmi í …
Hermundur tekur Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem dæmi í grein sinni um hugrekki og mikilvægi þess að óttast ekki að gera mistök. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fræg eru orð Winstons Churchill þess efnis að aðalatriðið sé ekki maður vinni eða tapi, heldur hvort maður hafi hugrekki til að gefast aldrei upp. Hugrekki er skilgreint sem gæði hugsunar sem gerir það að verkum að einstaklingur nær að takast á við erfiðleika, hættu og verki án hræðslu. Þannig má segja að hugrekki sé sambland af trú á eigin færni/kunnáttu og viljastyrk.

Trú á eigin færni/kunnáttu kemur oft sem afleiðing af því að ganga vel. Það að sigrast á þeim áskorunum sem maður hefur tekist á hendur. Það veldur því að við erum tilbúin að mæta nýjum áskorunum. Viljastyrkur er nátengdur þrautseigju, sem snýst um að vinna markvisst að vissum málefnum eða markmiðum. Mikilvægt í þessu samhengi er að vera ekki hræddur við að gera mistök. Allir þeir sem hafa náð góðum árangri hafa gert fjölda mistaka á leiðinni. Það að taka áskorun sem getur haft mikil áhrif á þitt líf krefst hugrekkis. Rannsókn á afreksíþróttamönnum á heimsmælikvarða hefur sýnt að þeir hugsa ekki um að gera mögulega mistök. Þess í stað einbeita þeir sér að því sem þarf að framkvæma. Sjálfstraust er að sjálfsögðu gífurlega mikilvægt í þessu samhengi. Rannsókn okkar á fremstu skíðastökkvurum í heiminum sýndi klárlega sterkt samhengi milli árangurs yfir keppnistímabil og sjálfstrausts. Að auki höfðu þeir allra bestu minni áhyggjur af því að mistakast. Rannsóknin sýndi klárlega mikilvægi sterks hugarfars hjá skíðastökkvurum.

Hermundur Sigmundsson segir mikilvægt að óttast ekki að gera mistök.
Hermundur Sigmundsson segir mikilvægt að óttast ekki að gera mistök. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sama sjáum við hjá ungum afreksfótboltamönnum í Noregi (15-18 ára), mjög sterkt samband milli ástríðu og þrautseigju. Í rannsókninni voru þjálfarar einnig beðnir um að raða leikmönnum eftir getu í fótbolta. Mest samband var milli röðunar þjálfara og ástríðu leikmanna.

Ef maður hugsar um hugrakka einstaklinga koma þrír einstaklingar upp í huga minn. Martin Luther King yngri er einn þeirra. Hann sýndi fádæma hugrekki í baráttu sinni fyrir réttindum blökkumanna í Bandaríkjunum. Nelson Mandela er annar. Hann er þekktur fyrir hugrekki sitt og sterka réttlætissýn í baráttu sinni fyrir mannréttindum. Vigdís Finnbogadóttir er sú þriðja, en hún sýndi mikið hugrekki þegar hún bauð sig fram til forseta og að verða fyrsta lýðræðislega kjörna konan sem gegndi slíku embætti. Þetta eru mínar fyrirmyndir. Hverjar eru þínar fyrirmyndir?

Sýnum hugrekki, tökum áskoruninni.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert