Kínversk stjórnvöld banna pláguleik

Markmið leiksins er að gera út af við mannkynið.
Markmið leiksins er að gera út af við mannkynið. Skjáskot/Ndemic Creations

Tölvuleikurinn Plague Inc. hefur verið fjarlægður úr smáforritaveitunni App Store í Kína þar sem leikurinn þykir innihalda „ólöglegt efni“. Frá þessu greinir framleiðandi leiksins, breska fyrirtækið Ndemic Creations. 

Plague Inc. hefur notið mikillar hylli frá því hann kom út fyrir um átta árum. Í leiknum búa notendur til sjúkdóm með það að markmiði að útrýma mannkyni. Notar leikurinn spálíkön sem þykja byggja á raunsæjan hátt á fjölda breyta til að spá fyrir um útbreiðslu og alvarleika sjúkdómsins.

BBC greinir frá því að um 130 milljónir notenda spili leikinn á heimsvísu, og að vinsældir hans hafi aukist til muna í Kína síðustu vikur eftir útbreiðslu kórónuveirunnar. Þannig hafi leikurinn verið mest sótta forritið í App Store í Kína nú í janúar.

Í yfirlýsingu frá Ndemic Creations segir að fyrirtækinu sé ekki ljóst hvort leikurinn hafi verið fjarlægður vegna kórónuveirunnar. Bendir fyrirtækið þó á að Sóttvarnaeftirlit Bandaríkjanna (CDC) hafi ítrekað viðurkennt fræðslugildi leiksins er snýr að skilningi á útbreiðslu sjúkdóma.

mbl.is