Hlúum að börnunum okkar!

Snorri Magnússon hefur um árabil boðið upp á tíma í …
Snorri Magnússon hefur um árabil boðið upp á tíma í ungbarnasundi.

Öll viljum við börnum okkar það besta. Hvítvoðungar fæðast inn í þennan heim og eiga allt undir að við sem foreldrar og forráðamenn hlúum vel að þeim. Okkar er ábyrgðin á að vel takist til, þó geta aðrir eins og ömmur og afar auðveldlega verið í lykilhlutverki til aðstoðar og leiðsagnar.

Tengslamyndun milli barns og foreldra er gífurlega mikilvæg fyrstu mánuðina í lífi barns. Tengslamyndunin sem þróast áfram, byggist m.a. á þremur þáttum. Sá mikilvægasti er talin snerting við barnið, að látið sé vel að því t.d. við mjólkurgjafir og umönnun. Að þörfum barnsins sé svarað og barnið læri að treysta foreldrum. Þá þannig að það finni sig öruggt í umhverfinu. Síðan að notuð sé röddin, að talað sé blíðlega til barnsins og að barninu sé svarað þegar það gefur frá sér óánægjuhljóð eða önnur. Að endingu að unnið sé með augnsamband milli barns og foreldra, nota bros og hlátur og barnið læri að skynja andlitsviðbrögð foreldra og rödd. Ef illa tekst til við myndun geðtengsla í frumbernsku eru líkur á að börnin sitji eftir hvað varðar sjálfsmynd og félagslega færni síðar á lífsleiðinni.

Hermundur Sigmundsson, prófessor við Norska tækni – og vísindaháskólann og …
Hermundur Sigmundsson, prófessor við Norska tækni – og vísindaháskólann og Háskólann í Reykjavík. Kristinn Magnússon

Að sögn fræðimannanna Esther Thelen og Karen Adolph gerist ekkert af sjálfu sér í þróun og þroska barns og líklega eru tvö fyrstu árin mikilvægustu ár barnsins. Virkni foreldra verður að vera til staðar þar sem börn eru háð því umhverfi sem þau fæðast eða lenda í. Tölum mikið við börnin okkar og við megum ekki gleyma strákunum, rannsóknir benda til þess að við tölum meira við stúlkur frá fæðingu. Jákvætt, örvandi og ögrandi umhverfi gæti verið forsenda þess að börn fái góðan stökkpall út í lífið, sem sagt að góður grunnur sé lagður. Svefninn og hvíldin eru barninu ekki síður nauðsynleg og rólegt umhverfi og nærgætni í samskiptum þarf ekki síður að vera til staðar.

Þó má spyrja sig hvort aukin örvun og vinna með ungbörnum (0-2 ára) hafi enn jákvæðari áhrif á þroska barns? „Snemmtæk íhlutun í þroska.“ Þar væri hægt að vinna markvisst með örvun skynfæra eins og jafnvægis, vinna með eftirtekt og athygli, samhæfingu augna og handa, vinna með styrk, nota heyrnina, hljóðfall, söng og tjáningu og að skemmta sér.

Snorri Magnússon, þroskaþjálfi og íþróttakennari.
Snorri Magnússon, þroskaþjálfi og íþróttakennari.

Slíka þjálfun mætti framkvæma á hinum ýmsu stöðum m.a. heima og í skipulögðu starfi í sal eða t.d. „ungbarnasundi“ í sundlaug. Colwyn Trevarthen, prófessor í barnasálfræði við Háskólann í Edinborg, segir að börn hafi frumkvæði af samskiptum og þegar ung börn eru að hjala eða „babbla“ þá eiga foreldrar og forráðamenn að svara þeim. Hann segir einnig að þegar unnið er með börnum þá eigi börnum að finnast gaman. Þótt ungbörn leiki sér ekki saman þá líki þeim vel að vera í hópi með jafnöldrum. Þessi vitneskja krefur foreldra um að vera virk í umhverfi barnsins, jafnvel þannig að börn hitti önnur börn og hópa.

Það er áhugavert að sjá hvað þeim finnst gaman að vera í umhverfi með öðrum ungbörnum, það er ljóst að þau eru að upplifa og læra hvert af öðru. Er íslenskt umhverfi barnvæmt samfélag? Núverandi breytingar á fæðingarorlofi á Íslandi eru þróun í rétta átt. Frá því að vera 9 mánuðir 2019 upp í að verða 12 mánuðir 2022. Nú er vitað að ef vel gengur hjá barni og nýorðnu foreldrunum við umönnun barnsins þá fylgir það barninu áfram inn í framtíðina. Við verðum að hlúa að fjölskyldunni, setja velferð barnsins í forgang en ekki eingöngu kröfur vinnumarkaðarins. Eitt af forgangsmálum samfélagsins ætti að vera stytting vinnuvikunar í 37/37,5 tíma á viku eins og á hinum löndunum á Norðurlöndunum.

Hlúum að börnum okkar.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Norska tækni – og vísindaháskólann og Háskólann í Reykjavík. Snorri Magnússon er þroskaþjálfi og íþróttakennari.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »