Forritunarkeppni framhaldsskólanna fer alfarið fram á netinu

Í fyrra var keppnin haldin í Háskólanum í Reykjavík líkt …
Í fyrra var keppnin haldin í Háskólanum í Reykjavík líkt og öll ár síðan hún var fyrst haldin árið 2001. Ljósmynd/Háskólinn í Reykjavík

Forritunarkeppni framhaldsskólanna sem haldin verður í tuttugasta skipti á morgun, laugardaginn 21. mars, verður með breyttu sniði í ár og mun fara alfarið fram á netinu vegna kórónufaraldursins.

Hátt í 100 keppendur í 36 liðum frá ellefu framhaldsskólum eru skráðir til leiks og munu keppa að lausnum á fjölbreyttum forritunarþrautum. Allt frá því að smíða forrit sem óskar keppninni til hamingju með 20 ára afmælið yfir í að smíða forrit til að aðstoða við raðgreiningar á kórónuveirunni SARS-CoV-2.

Í stað þess að keppendur mæti í Háskólann í Reykjavík, eins og framkvæmdin hefur verið í nítján ár, munu keppendur nú taka þátt í gegnum netið. Eins og venjulega nota keppendur vefkerfið Kattis til að fá aðgang að verkefnum keppninnar og til að skila inn lausnum. Lokaathöfn verður streymt á vef HR.

Sæti í ólympíuliði Íslands í boði

Keppninni er skipt í þrjár deildir eftir erfiðleikastigi en einnig verður boðið upp á keppni í opinni deild þar sem allir geta spreytt sig á verkefnum að heiman. Verðlaun verða veit fyrir þrjú efstu sætin í hverri deild auk þess sem sigurvegurum Alfa-deildar býðst niðurfelling skólagjalda í tölvunarfræðideild við Háskólann í Reykjavík í eina önn.

Delta-deildin er ætluð byrjendum eða þeim sem er rétt farnir að kynnast forritun. Æskileg kunnátta er einföld strengjavinnsla, inntak, úttak, if-setningar og einfaldar lykkjur. Hægt er að fylgjast með Delta-deildinni hér.

Beta-deildin er millistig sem er ætlað að brúa bilið á milli Delta- og Alfa-deildar. Í henni má búast við dæmum sem meðal annars fela í sér faldaðar lykkjur (e. Nested loops), flóknari strengjavinnslu og einföld reiknirit. Hægt er að fylgjast með Beta-deildinni hér.

Alfa-deildin er ætluð þeim sem hafa mikinn áhuga og þekkingu á forritun. Þeim þátttakendum sem best standa sig í þessari deild verður boðið að taka þátt í æfingabúðum með því markmiði að velja í ólympíulið Íslands í forritun. Hægt er að fylgjast með deildinni hér.

Á facebooksíðu keppninnar stendur nú yfir leit af þeim einstaklingum sem voru í sigurliði Iðnskólans árið 2001. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert