Íslensk fjarskipti standa vel undir auknu álagi

Vart hefur orðið við aukið álag á fjarskiptakerfum landsins vegna …
Vart hefur orðið við aukið álag á fjarskiptakerfum landsins vegna aukinnar fjarvinnu. AFP

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) og íslensk fjarskiptafélög hafa orðið vör við breytt notkunarmynstur hjá notendum, m.a. vegna aukinnar fjarvinnu. Ekki er þó um mikla aukningu umferðar í fjarskiptakerfunum að ræða og er umframafkastageta í bæði fastlínu- og farnetskerfi til staðar.

Fjarskiptakerfin virka því vel á landsvísu og hafa íslensk fjarskiptafyrirtæki ekki þurft að grípa til sérstakra aðgerða til að anna auknu álagi líkt og í Evrópu þar sem Netflix og YouTube hafa minnkað myndbandsgæði til að mæta auknu álagi.

Rekstur fjarskiptakerfa á sóttvarnasvæðum landsins er tryggður og varaáætlanir til staðar. Þá hafa fjarskiptafélögin verið í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun um GSM-reiki ef þörfin fyrir það skapast.

PFS og fjarskiptafélögin munu ræða stöðuna vikulega á fjarfundum auk þess sem aukafjarfundir verða haldnir eftir þörfum. Starfsfólki þeirra hefur verið skipt í flokka sem eru aðskildir og hittast ekki. Stór hluti starfsemi þeirra fer fram í fjarvinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert