Þróa lyf gegn veirum

Víða um heim eru fyrirtæki að reyna að finna lyf …
Víða um heim eru fyrirtæki að reyna að finna lyf sem getur varnað fyrir veirunni sem veldur COVID-19. AFP

Íslenskt fyrirtæki þróar lyf sem gæti haft góða virkni gegn veirum. Fá niðurstöður úr fyrstu veirurannsókninni á næstu dögum. Þetta kemur fram í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag.

EpiEndo Pharmaceuticals, sem þróar frumlyf gegn sjúkdómum í öndunarfærum, gæti leikið hlutverk þegar næsti veirufaraldur gengur um heiminn. Íslenska fyrirtækið hyggst senda frumlyfið til rannsóknarstofa sem eru með sýni af SARS-CoV-2 veirunni.

Nýlegar niðurstöður úr athugun í Frakklandi benda til þess að blanda malaríulyfs og sýklalyfsins Azithromycin (Zitromax) hafi góða virkni gegn COVID-19-sjúkdómnum. „Zitromax er eitt af fáum lyfjum sem bæla niður þráláta sjúkdóma í öndunarfærum en það er ekki notað í þeim tilgangi vegna hættu á myndun ónæmra bakteríustofna gegn sýklalyfinu. EpiEndo hefur hins vegar fjarlægt eiginleika lyfsins sem drepa bakteríur án þess þó að draga úr öðrum eiginleikum þess,“ segir í Fréttablaðinu í dag.

mbl.is