Amgen nýti rannsóknir ÍE á kórónuveirunni

Frá höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar.
Frá höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Júlíus

Íslensk erfðagreining mun veita upplýsingar byggðar á rannsóknum á sjúklingum sem ná bata eftir að hafa sýkst af kórónuveirunni.

Frá þessu greinir breska blaðið Guardian, en í umfjöllun þess er bent á að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi rætt við bandaríska lyfjafyrirtækið Amgen, móðurfyrirtæki ÍE, um framleiðslu nýrra lyfja við sjúkdómnum sem veiran veldur.

Amgen tilkynnti í síðustu viku að fyrirtækið myndi slást í lið með líftæknifyrirtækinu Adaptive Biotechnologies til að reyna að bera kennsl á mótefni sem virkað gætu gegn veirunni og þar með hjálpa til við gerð lyfjameðferða.

Tekið er fram að rannsóknin sé þó aðeins á byrjunarreit, en ÍE (DeCode Genetics), sem dótturfyrirtæki Amgen á Íslandi, muni veita innsýn byggða á erfðafræðilegum upplýsingum frá sjúklingum sem hafi náð sér af Covid-19-sjúkdómnum.

mbl.is