Tveimur bjargað með blóðvökvameðferð

Vísindamaðurinn og læknirinn Choi Jun-yong á Severence sjúkrahúsinu í Seúl …
Vísindamaðurinn og læknirinn Choi Jun-yong á Severence sjúkrahúsinu í Seúl segir að blóðvökvameðferð geti verið gagnleg þegar sjúklingar bregðist ekki við annarri meðferð. AFP

Læknum í Suður-Kóreu hefur tekist að bjarga lífi tveggja sjúklinga sem veikst höfðu alvarlega af völdum COVID-19 með blóðvökvameðferð.

Sjúklingarnir tveir þjáðust af alvarlegri lungnabólgu af völdum kórónuveirunnar og brugðust ekki við hefðbundnum lækningum gegn COVID-19. Þau náðu sér hins vegar að fullu eftir blóðvökvameðferð, en í henni felst að nota blóðvökva (e. plasma) úr einstaklingi sem hefur náð sér af kórónuveirunni og þar af leiðandi myndað mótefni.

Í umfjöllun AFP segir að fyrri sjúklingnum, 71 árs gömlum karlmanni með engin undirliggjandi heilsuvandamál, hafi aðeins tekið að batna við blóðvökvameðferð með blóðvökva úr einstaklingi á þrítugsaldri sem hafði náð sér af veirusýkingunni meðfram sterameðferð.

Fram til þess hafði verið reynt að halda sjúkdómseinkennum mannsins í skefjum með malaríulyfjum og öndunarvél.

Hinn sjúklingurinn, 67 ára gömul kona, brást heldur ekki við meðferð með malaríulyfjum, sýklalyfjum eða súrefnismeðferð. Bati hennar hófst þegar henni var veitt blóðvökva- og sterameðferð.

Frekari rannsókna þörf

Vísindamaðurinn og læknirinn Choi Jun-yong á Severence-sjúkrahúsinu í Seúl segir að blóðvökvameðferð geti verið gagnleg þegar sjúklingar bregðast ekki við annarri meðferð. Hins vegar þurfi til stærri rannsóknir til að sanna virkni meðferðarinnar.

Niðurstöður rannsóknarinnar um áhrif blóðvökvameðferðar hafa verið birtar í ritrýnda vísindatímaritinu Journal of Korean Medicine og hvetur Kwon Jun-wook, embættismaður hjá miðlægri sjúkdómavarnadeild Seúl, sérfræðinga til þess að halda áfram rannsóknum á blóðvökvameðferð gegn COVID-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert