Zoom snýr á kórónuveiruna

Frá fundi Boris Johnsons, forsætisráðherra Breta, með samráðherrum á Zoom …
Frá fundi Boris Johnsons, forsætisráðherra Breta, með samráðherrum á Zoom úr Downingstræti 10. Þar var hann í einangrun vegnakórónuveirufaraldursins og fjarfundatæknin eina leiðin fyrir hann að funda með ráðherrum sínum. AFP

Hvað á Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sameiginlegt með glaðbeittum unnendum gleðistunda á barnum og þúsundum námsmanna um heim allan? Allir hafa þeir brúkað  fundasmáforritið Zoom til að ná saman mitt í kórónuveirufaraldrinum illræmda.

Forritið hefur náð gríðarlegri útbreiðslu á stuttum tíma en Zoom-fyrirtækið í Kísildal í Kaliforníu sætir nú rannsókn þar sem farið er í saumana á því hvernig það umgengst einka- og öryggismál, svo sem hvers vegna óboðnir gestir geti vaðið inn í samræður.

Zoom stofnaði Eric nokkur Yuan árið 2011 og fékk skráningu á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinum í New York fyrir ári. Hefur markaðsvirði þess rokið upp úr öllu valdi og nemur nú 35 milljörðum dollara.

Yuan hefur sagst hafa ástríðu fyrir fjarskiptatækni tíunda áratugar síðustu aldar, en þá var hann háskólanemi í Kína. Lagðist hann í tilraunir um hvernig hann gæti séð unnustu sína án þess að þurfa að takast á hendur margra klukkutíma lestarferð.

Zoom var kynnt á markaði sem tól fyrir fólk sem vinnur fjarri hvað öðru að bera saman bækur sínar um viðskiptamál og keppa við tæknilausnir frá risum á borð við Microsoft, Facebook, Google og fleiri.

Póker og útfarir

Þegar þjóðir heims halda kyrru fyrir heima hjá sér vegna kórónuveirunnar hefur Zoom verið brúkað við fjarkennslu, æfingatíma, pókerspilamennsku, kirkjulegar athafnir og drykkjugleðistundir. Pör hafa gengið í hjónaband í „zoomunar“-athöfnum, afmælisdögum verið þar fagnað og jarðarfarir hafa menn getað sótt í sýndarveruleika.

Jógakennarinn Chaukei Ngai fagnar nemendum í Zoom-fjartíma sem hún stýrir …
Jógakennarinn Chaukei Ngai fagnar nemendum í Zoom-fjartíma sem hún stýrir frá Hong Kong. AFP

„Það er svo auðvelt í notkun og ókeypis, sem er fallega gert,“ segir bandaríski menntaskólakennarinn Justin Minkel, sem kennir nemendum sínum og leggur þeim fyrir með Zoom. „Bara smella á einn tengil,“ segir hann um hversu einföld notkun forritsins er. Heimatímar geta verið ögn óreiðukenndir með hundgá eða barnarifrildi í bakgrunni. Gegn því vegur Minkel með því að draga niður í hljóðnemum einstakra nemenda þar til hann þarf að heyra í þeim.

Að sögn Yuan fóru þátttakendur í zoomfundum í mars upp fyrir 200 milljónir á dag í nýliðnum marsmánuði. Til samanburðar voru þeir aðeins 10 milljónir á dag undir árslok 2019.

Myndsímasamtöl hafa rokið upp úr öllu valdi á öllum skilaboðasenum netsins, þar á meðal WhatsApp, Messenger og öllum samkomustöðum Google. Zoom er þar í sérflokki og hefur snarpri vinsældaaukningu þess helst verið líkt við skothraða geimflaugar. Þar geta allt að eitt hundrað manns tekið samtímis þátt í einum og sama vídeófundinum. Fyrstu 40 mínúturnar eru ókeypis en hægt er að kaupa úrvalsaðgang með margfalt meiri notkun og umfjöllun fyrir 15 dollara á mánuði. Reyndar hefur Zoom aflétt 40 mínútna viðmiðuninni af ókeypis áskriftinni fyrir kennara í mörgum löndum. Meðal valmöguleika í boði geta notendur til dæmis valið sér bakgrunnsmynd, svo sem af Golden Gate-brúnni eða sólarströnd og þannig hulið hvað í raun og veru er að sjá að baki notandanum.

Átroðsla

Stafræni þjálfarinn Stephanie DeMichele þakkar það notkun Zoom að menn komist yfir óttann við að að losna úr tengslum við skólann, vinina, fjölskylduna og fleira fólk sem tengist notandanum náið. „Og hér kemur Zoom og segir: það er ókeypis og þér finnst þú ekki vera einangraður. Þess vegna greip fólk gæsina,“ segir DeMichele.

Fyrirbærið „zoomvipun“ hefur hins vegar leitt af sér viðvaranir um slakt netöryggi. Boðflennur hafa raskað trúarathöfnum, fjarnámi skólabekkja og öðrum fundahöldum á Zoom. Dæmi eru um að klámmyndum hafi verið troðið þar inn.

Að sögn bandarískra fjölmiðla hefur Zoom deilt upplýsingum um notendur til þriðja aðila. Hafa þeir beint athyglinni að því hversu vel eða illa fjarfundargögn eru varin.

Saksóknarar í mörgum ríkjum Bandaríkjanna eru að rannsaka gjörðir Zoom varðandi öryggis- og einkamál notenda. Þetta er nú þegar til athugunar í Connecticut, New York og Flórída. Hefur alríkislögreglan FBI vakið athygli á þeim möguleika að zoomfundi mætti ræna í heild. sinni.

Táknmerki Zoom-smáforritsins sem öðlast hefur gríðarlega notkun.
Táknmerki Zoom-smáforritsins sem öðlast hefur gríðarlega notkun. AFP

Yuan hét því í fyrri viku að efla öryggis- og gagnavarnir og baðst afsökunar á því sem úrskeiðis hefði farið. „Við játum að við höfum ekki staðið okkur í samræmi við væntingar um öryggis- og einkamálavarnir. Yfir því er ég afar hryggur,“ sagði hann.

Zoom var í meginatriðum hannað fyrir stórfyrirtæki til samskipta þeirra við tæknisveitir sínar og að tryggja þeim stuðning og varnir, að sögn Yuan.

„Við þróuðum ekki vöruna af þeirri framsýni að nokkrum vikum síðar yrðu jarðarbúar allt í einu allir vinnandi, nemandi eða djammandi að heiman,“ sagði Yuan. „Þessir nýju notendur hafa hjálpað okkur við að draga fram í dagsljósið óvænta galla í kerfunum.“

Að sögn stofnunarinnar Electronic Frontier Foundation er það góðs viti að Zoom gangist við öryggisvanda og heiti því að lagfæra hann. „Fyrir Zoom liggur heilmikil vinna við úrbæturnar ætli það sér að endurreisa traust á búnaði sínum,“ segir Gennie Gebhart, rannsóknarstjóri stofnunarinnar.

Greinandi hjá fyrirtækinu Creative Strategies, Carolina Milanesi, segir við AFP-fréttaveituna, að á sama tíma og það skoðar bráðan vanda sinn megi það ekki missa sjónar á framtíðinni. „Að endurtaka það sem Zoom hefur orðið á er ekki erfitt,“ segir hún. „Þeir þurfa að velta fyrir sér hvert þeir vilja stefna.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert