Losun gróðurhúsalofttegunda nær óbreytt milli ára

Flest bendir til að íslensk stjórnvöld verði að kaupa losunarheimildir …
Flest bendir til að íslensk stjórnvöld verði að kaupa losunarheimildir til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Kyoto-bókuninni, sem rennur út í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi dróst saman um 0,1% á milli áranna 2017 og 2018. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun. Hámarki losunar var náð árið 2007 en á árunum eftir hrun dróst losunin töluvert saman. Frá árinu 2012 hefur hún hins vegar verið nokkuð stöðug.

Rannsóknin tekur til losunar á „beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda samkvæmt skuldbindingum gagnvart Evrópusambandinu“. Segir í tilkynningunni að frá árinu 2005, sem er viðmiðunarár fyrir þær skuldbindingar, hafi losun dregist saman um 6,3% en samdrátturinn sé óverulegur frá árinu 2012. Helstu uppsprettur eru vegasamgöngur (33%), olíunotkun á fiskiskipum (18%), nytjajarðvegur (8%), losun frá kælimiðum (svokölluð F-gös, 6%) og losun frá urðunarstöðum (7%).

Meginbreytingarnar eru aukin losun frá vegsamgöngum (um 2,7%), málmframleiðslu (um 1,2%), fiskiskipum (um 3,3%), en samdráttur í losun frá kælimiðlum (um 12%), landbúnaði (um 4,7%) og olíunotkun á vélum og tækjum (um 20%).

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2018 nam 4.857 kílótonnum af CO2-ígildum, sem er rúmlega 30% aukning frá árinu 1990. Samkvæmt skuldbindingum Kyoto-bókunarinnar, sem rennur út í ár, átti losun Íslands að dragast saman um 20% árið 2020 miðað við árið 1990, en í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn þess efnis í fyrra sagði hann að flest bendi til að Ísland þurfi að kaupa losunarheimildir fyrir hundruð milljóna til að standast skuldbindingarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert