Veirur algengari í leðurblökum en öðrum spendýrum

Ýmsar skýringar eru taldar vera á því að súnuveirur eru …
Ýmsar skýringar eru taldar vera á því að súnuveirur eru algengari í leðurblökum en öðrum tegundum. AFP

Flest bendir til þess að veirur séu mun algengar í leðurblökum, sem er annar tegundaauðugasti ættbálkur spendýra, en í öðrum spendýrategundum og á því eru ýmsar skýringar.

Þetta kemur fram í svari Vísindavefsins, þar sem spurt er hvort veirur séu algengari í leðurblökum en öðrum dýrum. Í svari Vísindavefsins segir að rúmlega 1.200 leðurblökutegunda séu þekktar og að aðeins nagdýr séu fjölmennari með 2.300 tegundir.

Þær veirur sem skipta mestu máli eru svonefndar súnuveirur sem smitast með náttúrulegum hætti á milli dýra og manna, en þrátt fyrir að leðurblökutegundir séu um helmingi færri en tegundir nagdýra hefur fundist 61 súnuveira í þeim en 68 í nagdýrum.

Ýmsar skýringar eru taldar vera á því að súnuveirur eru algengari í leðurblökum en öðrum tegundum, en tilteknar veirur virðast til að mynda oftar endursmita leðurblökur miðað við hliðstæður í mönnum og þannig getur smit viðhaldist lengur hjá leðurblökum. Enn fremur virðast leðurblökur í fyrstu hafa sterkt ónæmissvar gegn veirum, en eiga að sama skapi erfitt með að hreinsa veiruna úr sér.

Veirur ná þannig oft að fjölga sér verulega í leðurblökunum án þess að dýrin sýkist að ráði. Þetta gæti þýtt að veirur hafi vegna áhrifa náttúrulegs vals orðið að vægari, og ef til vill þrálátari sýkingum í leðurblökum.

Rækjur til sölu á votmarkaði í Wuhan þar sem mögnun …
Rækjur til sölu á votmarkaði í Wuhan þar sem mögnun kórónuveirunnar átti sér stað. AFP

Þá lifa leðurblökur oft í mjög þéttum byggðum, þúsundir eða jafnvel milljónir saman, sem stuðlar að því að smit berst greiðlega á milli einstaklinga, auk þess sem margar leðurblökutegundir flakka langar vegalengdir á milli sumar- og vetrarsvæða og geta því dreift sóttarveikjum mun víðar en önnur dýr. Loks ná leðurblökur háum aldri miðað við stærð og hafa því lengri tíma til að dreifa smiti.

Barst líklega mönnum í gegnum millihýsil

Þar sem leiðir manna og leðurblaka skarast eykst hættan á að smit berist á milli, en veirur úr leðurblökum hafa sem dæmi valdið nipah-faröldrum í Malasíu og Bangladess og ebólufaraldrinum.

Annað og nærtækara dæmi er síðan COVID-19-faraldurinn sem gengur yfir heimsbyggðina alla árið 2020. Upptök veirunnar eru ekki kunn en vitað er að mögnun átti sér stað á votmarkaði í borginni Wuhan í Kína, þar sem verslun með lifandi dýr og afurðir ýmissa dýra fór fram. Veiran virðist hafa borist úr leðurblökum, trúlega um annan óþekktan millihýsil, áður en smit barst í menn og loks manna á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert