Heitasta ár frá upphafi mælinga í Evrópu

Einmuna hitabylgja reið yfir meginland Evrópu í sumar.
Einmuna hitabylgja reið yfir meginland Evrópu í sumar. AFP

Árið 2019 var heitasta ár frá upphafi mælinga í Evrópu. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu loftslagssviðs Copernicusar, jarðkönnunaráætlunar Evrópusambandsins (EU's Copernicus Climate Change Service, CS3). Ellefu af tólf heitustu árum frá upphafi mælinga hafa verið eftir aldamótin 2000 á sama tíma og magn gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar fer vaxandi.

Einmuna hitabylgja reið yfir álfuna síðasta sumar og stráféllu hitamet í fjölmörgum löndum, svo sem í Frakklandi þar sem hiti í mörgum borgum fór í fyrsta sinn yfir 40 gráður. Áætla heilbrigðisyfirvöld þar í landi að 1.400 manns hafi látist síðasta sumar af völdum hitans.

Sé litið til síðustu fimm ára hefur meðalhitastig í Evrópu verið tveimur gráðum hærra en var á seinni hluta 19. aldar, segir í skýrslunni.Á sumum svæðum í álfunni var síðasta ár allt að fjórum gráðum hlýrra, að meðaltali, en fyrrnefnt 19. aldar viðmið. Á heimsvísu var árið 2019 næstheitasta ár frá upphafi mælinga, en þarf að lúta í lægra haldi fyrir 2016 er sjávarstraumar El Nino voru óvenjukraftmiklir. 

Carlos Buontempo, forstjóri loftslagssviðsins (CS3), segir þó mikilvægt að einblína á hlýnun til langs tíma fremur en eitt tiltekið ár. „Eitt einstaklega heitt ár sýnir ekki fram á þróun. Það að við fáum ítarlegar upplýsingar frá rannsóknarstofum okkar, sem vakta allar hliðar loftslagsins, gefur okkur möguleikann á að draga ályktanir,“ segir hann.

Samkvæmt Parísarsamkomulaginu stefna ríki heims á að halda hlýnun loftslagsins „vel innan“ tveggja gráða frá því sem var fyrir iðnbyltingu. Eigi það að ganga eftir hafa Sameinuðu þjóðirnar sagt að losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu verði að dragast saman um 7,6% á ári til ársins 2030.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert