Mönnum og býflugum stafar ógn af „drápsgeitungum“

Broddur asíska geitungsins er einnig tilkomumikill eða um 6 mm …
Broddur asíska geitungsins er einnig tilkomumikill eða um 6 mm langur og geta stungurnar og ofnæmisviðbrögðin sem af þeim hljótast verið afar óþægileg. Ljósmynd/Vísindavefurinn

Asíski risageitungurinn (vespa mandarinia) hefur gert vart við sig í hundraðatali í Washingtonríki í Bandaríkjunum, við landamæri Kanada, við mikinn óhug íbúa. 

Landbúnaðaryfirvöld hafa varað við geitungunum en óttast er að mönnum og býflugnaiðnaði stafi ógn af innrás þeirra, sem ganga alla jafna undir viðurnefninu „drápsgeitungar“. 

Engin önnur geitungategund í heiminum hefur fleiri „mannslíf á samviskunni“, að því er segir í umfjöllun á Vísindavefnum. Að meðaltali deyja árlega um 40 manns af hans völdum.

Heimkynni asíska risageitungsins eru í Austur-Asíu, nánar tiltekið í Japan, Kína, í Prímorskí-héraði Rússlands og á Kóreuskaga. Auk þess teygir hann útbreiðslu sína suðvestur eftir Asíu, í þétta skóga Indókína og Taívans. Tegundin er þó langalgengust í fjalllendi Japans. Risageitungurinn gerði fyrst vart við sig í Washington í lok síðasta árs að sögn Sven-Eriks Spichigers, skordýrafræðings hjá landbúnaðardeild Washingtonríkis. 

Tæplega 6 cm að stærð með 6 mm langan brodd

Eins og nafnið gefur til kynna er asíski risageitungurinn stór og getur drottningin verið allt að 5,5 cm löng. Til samanburðar má geta þess að drottning trjágeitungs (vespula vulgaris), sem meðal annars lifir í íslenskri náttúru, er 1,1-1,4 cm á stærð. 

Broddur asíska geitungsins er einnig tilkomumikill eða um 6 mm langur og geta stungurnar og ofnæmisviðbrögðin sem af þeim hljótast verið afar óþægileg. „Hann getur stungið þig margsinnis og dælir stærri skammti af eitri í hverri stungu sökum stærðar sinnar. Flestir höndla eina til tvær stungur, en ef þú ert stunginn margsinnis kemst eitrið í blóðrásina sem hefur skaðleg áhrif á líffærin,“ segir Spichiger. 

Grunur beinist að flutningaskipum

Asíski risageitungurinn er rándýr og lifir meðal annars á býflugum og öðrum geitungum. Spichiger segir því ástæðu til að óttast að býflugnabúum í ríkinu stafi ógn af drápsgeitungunum, en þeir fara í „slátrunarham“ og drepa býflugurnar og yfirtaka búin og næra þannig afkvæmi sín. 

Óljóst er hvernig tegundin barst til Bandaríkjanna en grunurinn beinist helst að gámaflutningaskipum. Ef drápsgeitungarnir voru fluttir inn af ásettu ráði er það brot á bandarískri löggjöf. 

Íbúar í ríkinu geta nú tilkynnt drápsgeitungana verði þeir varir við þá en þeim er ráðlagt að halda sig fjarri geitungnum þar sem þeir gera hiklaust árás telji þeir að sér sé ógnað. „Óbreyttir borgarar ættu ekki að eiga við bú risageitungsins. Hefðbundið net mun ekki verja þig. Broddurinn er 6 mm að lengd og getur auðveldlega stungið í gegnum fatnað,“ varar Spichiger við.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert