Erfðaefni veirunnar sýna að hún er ekki manngerð

Hægfara breytingar á veirunni og endurröðun erfðaefnisins hafi gert henni …
Hægfara breytingar á veirunni og endurröðun erfðaefnisins hafi gert henni kleift að berast til manna og að lokum að smitast þeirra á milli. Þetta kemur fram í svari Jóns Magnúsar Jóhannessonar, deildarlæknis á Landspítala, og Arnars Pálssonar, erfðafræðings og prófessors í lífupplýsingafræði við Háskóla Íslands, við spurningunni „hvernig vita vísindamenn að veiran sem veldur COVID-19 var ekki búin til á tilraunastofu?“ á Vísindavefnum. Ljósmynd/Landspítalinn

„Rannsóknir á erfðaefni veirunnar SARS-CoV-2 sem veldur sjúkdómnum COVID-19 sýna að veiran varð til við náttúrulega þróun í mismunandi dýrum.“ Svohljóðandi er stutta útgáfan af nýju svari á Vísindavef Háskóla Íslands þar sem spurt er hvernig vísindamenn viti að veiran sem veldur COVID-19 hafi ekki verið búin til á tilraunastofu. 

Sögur þess efnis að veiran hafi verið búin til á tilraunastofu hafa ítrekað farið á flug, ekki síst eftir að bandarísk stjórnvöld ýjuðu að því þegar Mike Pompeo utanríkisráðherra sagði í byrjun mánaðarins að „mjög sterk­ar vís­bend­ing­ar“ sýndu að veir­an ætti upp­runa sinn á tilrauna­stofu í Kína. Kenningin hef­ur ít­rekað verið bor­in til baka bæði af Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­inni (WHO) og ýms­um vís­inda­mönn­um. 

Í svari Jóns Magnúsar Jóhannessonar, deildarlæknis á Landspítala, og Arnars Pálssonar, erfðafræðings og prófessors í lífupplýsingafræði við Háskóla Íslands, segir að hægfara breytingar á veirunni og endurröðun erfðaefnisins hafi gert henni kleift að berast til manna og að lokum að smitast þeirra á milli. Rannsóknir vísindamanna á þessu ferli útiloka, að svo miklu leyti sem það er hægt, að veiran hafi verið búin til á tilraunastofu.

„Skyldmenni“ veirunnar komu úr leðurblökum

Líkt og oft hefur komið fram tilheyrir veiran SARS-CoV-2 fjölskyldu kórónuveira sem inniheldur sex aðrar veirur sem sýkja menn. Talið er að þessar veirur hafi upprunalega borist í menn úr dýrum. Nánustu „skyldmenni“ SARS-CoV-2 eru veirur sem heita SARS-CoV og MERS-CoV. Þær komu báðar úr leðurblökum en bárust í menn úr millihýslum. Sú fyrrnefnda úr einni tegund kattardýra og sú síðarnefnda úr drómedara. Mjög líklegt er að SARS-CoV-2 hafi einnig komið upprunalega úr leðurblökum, þótt óvíst sé hvort millihýsill hafi þar komið við sögu. 

Mjög líklegt er að SARS-CoV-2, sem nú gengur yfir heiminn, …
Mjög líklegt er að SARS-CoV-2, sem nú gengur yfir heiminn, hafi komið upprunalega úr leðurblökum, þótt óvíst sé hvort millihýsill hafi þar komið við sögu. AFP

Margar rannsóknir hafa skoðað erfðaefni SARS-CoV-2 í þaula og borið saman við aðrar kórónuveirur, bæði úr mönnum og öðrum dýrum. „Fjöldi stökkbreytinga í mismunandi stofnum veirunnar staðfestir að SARS-CoV-2 er ný veira sem hefur nýlega borist til manna. Skyldasta þekkta veira SARS-CoV-2 er kórónuveira úr leðurblöku. Sú veira heitir á fræðimáli RaTG13,“ segir í svarinu. 

Ágangur manna og rask á vistkerfi dýra er kveikjan að farsóttinni

Þar segir einnig að svonefnt bindiprótín veirunnar SARS-CoV-2 sé mjög líkt bindiprótínum í kórónuveirum sem koma úr beltisdýrum af tegundinni Manis javanica (e. Sunda pangolin).

Allt bendir því til þess að veiran hafi komið úr leðurblökum en fengið bindiprótínið úr annarri kórónuveiru sem sýkir beltisdýr. Auk þess er fullvíst að allir heimsfaraldrar frá upphafi 20. aldar hafa komið frá dýrum.

„Ágangur manna og rask á vistkerfi villtra dýra er kveikjan að COVID-19-farsóttinni. Við slíkt eykst hættan á að súnuveirur, það er veirur sem smitast með náttúrulegum hætti á milli manna og dýra, berist í menn. Ef fólk hefði hlustað á málflutning veirufræðinga og náttúruverndarsinna sem hafa bent á hættuna við þetta, væri mannkynið ekki í þeirri stöðu nú að kljást við heimsfaraldur,“ segir sömuleiðis í svarinu.

mbl.is