Varpa nýju ljósi á fyrirboða eldgosa

Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun.
Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun. Ljósmynd/HÍ

Ný rannsókn undir forystu íslenskra jarðvísindamanna, sem birt var í vísindatímaritinu Nature Communications í dag, varpar skýrara ljósi á aðdragangda og þróun eldsumbrota og útskýrir hvernig stór eldgos geta haft litla fyrirboða á sama tíma og fyrirboðarnir eru stundum stærri í minni gosum.

Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur fór fyrir rannsókninni, sem unnin var í samstarfi vísindamanna við Háskóla Íslands, Veðurstofunnar, Íslenskra orkurannsókna og erlendra vísindamanna við stofnanir í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Japan og Portúgal.

„Við höfum mikið rannsakað kvikuhreyfingar og þau líkön sem við notum til að túlka þær. Við höfum séð að þær forsendur sem notaðar eru eiga ekki alltaf við, og sérstaklega tekið eftir að fyrir sum stór eldgos gerist ekki mikið, á meðan fyrirboðar geta verið miklir fyrir lítil eldgos,“ segir Freysteinn í samtali við mbl.is.

Bárðarbunga.
Bárðarbunga. Ljósmynd/Þórdís Högnadóttir

Nýtist við rannsóknir um allan heim

Hann segir að þrír þættir standi upp úr í niðurstöðum rannsóknarinnar. Í fyrsta lagi verði að taka tillit til þess að kvika getur verið eðlisléttari en jarðskorpan í kring. Það veldur því að hún hefur mikinn uppdrifskraft og þrýstist upp á yfirborðið, á svipaðan hátt og maður í sundlaug þrýstist upp á vatnsyfirborðið.

Í öðru lagi á kvika auðveldara með að koma sér fyrir í jarðskorpunni en áður var talið. Kemur þá í ljós að skorpan getur hnigið til og myndað rými fyrir bergkviku. „Þessar upplýsingar þurfum við að nýta okkur,“ segir Freysteinn. Þriðji þátturinn snýr að kvikurásum sem Freysteinn segir að geti haldist opnar lengur en áður var talið. Þetta þýðir að bergkvika á auðveldara með að streyma um langan tíma þó að þrýstingur falli í kerfinu.

Vísindamennirnir hafa notað aðferðirnar til að varpa skýrara ljósi á aðdraganda og upphaf umbrotanna í Bárðarbungu og eldgossins í Holuhrauni 2014­-2015, en Freysteinn segir að þær geti nýst við rannsóknir á eldgosum um allan heim. „Við höfum til dæmis reynt að skilja umbrot á Reykjanesskaga þar sem kvika hefur troðið sér inn í jarðskorpuna á síðustu mánuðum.“

Freysteinn segir að hin nýbirta rannsókn sé í raun einungis ákveðin byrjun. Nú þurfi að nýta þessa aðferðafræði til frekari rannsókna og þá komi sér vel að vakin hafi verið athygli á greininni á jafngóðum stað og vísindatímaritinu Nature Communcations, sem er öllum opið á netinu.

mbl.is