Útblástur CO2 aldrei minnkað meira

Umferð í Pakistan. Útblástur gróðurhúsalofttegunda var 17% minni í heiminum …
Umferð í Pakistan. Útblástur gróðurhúsalofttegunda var 17% minni í heiminum í byrjun apríl á þessu ári en árið á undan. Annað eins hefur áreiðanlega ekki sést áður, segja vísindamenn. AFP

Útblástur COvar 17% minni í heiminum í byrjun apríl á þessu ári en árið á undan, ef marka má nýja grein í Nature um áhrif kórónuveirufaraldursins á útblástur gróðurhúsalofttegunda. Þar sem minnkunin var mest nam samdrátturinn um 26% á við sama tíma í fyrra, eins og í Þýskalandi.

„Áætlaður samdráttur í daglegum útblæstri CO2 vegna víðtækra og þvingaðra lokana víða um heim er gífurlegur og hefur áreiðanlega ekki sést áður,“ segir í greininni.

Vísindamenn gerðu úttekt á útblæstri sem kæmi til vegna orkunotkunar í framleiðslu og samgöngum hjá stærstu efnahagskerfum heims. Út frá viðmiðum um útblástur hvers ríkis og með því að áætla hve mikið dró úr útblæstri á hverju sviði, var ályktað að samdrátturinn yrði eins mikill og ofan greinir. Ekki er þó byggt á rauntímamælingum á útblæstri, enda ekki fyrir hendi.

Útblástur var fljótur að taka við sér eftir síðustu kreppu

Samdrátturinn orsakast af samkomutakmörkunum iðnríkja, sem ollu hruni í spurn eftir orku. Í greininni segir að orkunotkun dragist alltaf saman í efnahagskreppu en að þetta skipti sé ólíkt öðrum, því erfitt er að sjá að hún muni rjúka strax aftur upp. Í síðustu efnahagskreppu dróst útblástur saman um 1,4% árið 2009 en jókst strax um 5,1% árið 2010.  

Mest eru áhrifin í samgöngum. Eins og segir í umfjöllun Spiegel um niðurstöður rannsóknarinnar, dróst útblástur vegna skipa- og bílaumferðar saman um helming. Útblástur vegna flugumferðar dróst að vonum meira saman, en þó ekki nema um 60%. 

Ljóst er að útblásturinn mun á heildina litið taka við sér á ný samhliða afléttingum takmarkana, en skýr fylgni er þarna á milli. Miðað við stöðuna eins og hún er ætti útblástur í heiminum að minnka um 4,2-7,5% á árinu, allt eftir því hve fljót hjól atvinnulífsins verða að komast aftur á snúning og flugvélar á loft.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert