Vonir bundnar við nýtt bóluefni

Um allan heim er unnið að þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni. …
Um allan heim er unnið að þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni. Sú vinna er á fullu stími og í raun er hraðinn fordæmalaus. AFP

Bandarískt lyfja- og líftæknifyrirtæki, sem hefur unnið að þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni, hefur greint frá því að vonir séu bundnar við að bóluefnið geti styrkt ónæmiskerfi einstaklinga í baráttunni við veiruna. 

Fyrirtækið Moderna hefur gert klínískar rannsóknir með bóluefnið á fólki og fyrstu niðurstöður sýna fram á að mótefni, sem geri veiruna óvirka, hafi myndast í fyrstu átta einstaklingunum sem tóku þátt í rannsókninni. Þetta kemur fram á vef BBC. 

Talsmenn Moderna segja enn fremur að ónæmisviðbrögðum fólks við bóluefninu svipi til þeirra viðbragða sem verði í líkama einstaklinga sem hafa smitast af veirunni. 

Bandaríska fyrirtækið Moderna bindur vonir við að bóluefnið geti unnið …
Bandaríska fyrirtækið Moderna bindur vonir við að bóluefnið geti unnið bug á veirunni. AFP

Til stendur að útvíkka rannsóknina enn frekar í júlí en markmiðið er að sjá hvort bóluefnið geti verndað fólk gegn sýkingum. 

Um 80 hópar vísindamanna um allan heim vinna nú að þróun bóluefnis gegn veirunni. Sú vinna er unnin á miklum hraða; í raun hefur aldrei verið unnið jafn hratt að slíkri þróun. 

Moderna er fyrsta fyrirtækið sem gerir tilraunir á bóluefni, sem kallast mRNA-1273, á fólki. Í bóluefninu er lítil hluti af erfðalykli veirunnar, sem er sprautað inn í líkama sjúklingsins, að því er segir í frétt BBC. 

Óhætt er að segja að kórónuveiran hafi sett allt á …
Óhætt er að segja að kórónuveiran hafi sett allt á hliðina í heiminum, og því er unnið kröftuglega að því að þróa bóluefni sem geti kveðið hana niður, eða a.m.k. haldið henni í skefjum. AFP

Bóluefnið getur ekki valdið sýkingu eða öðrum einkennum sem COVID-19 getur orskaða, en það getur aftur á móti örvað viðbragð hjá ónæmiskerfinu. 

Tilraunirnar eru unnar í samstarfi við ofnæmis- og smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna. Þær hafa hingað til sýnt fram á að bóluefnið leiði til framleiðslu á mótefni sem getur gert veiruna óvrka.

Tekið er fram að þetta hefur aðeins verið athugað hjá átta einstaklingum af alls 45 sem taka þátt í fyrstu klínísku rannsókninni. 

mbl.is