Stórar áskoranir fyrir íslenskt samfélag

Árið 2010 fengu 3% af yngri en 18 ára ADHD-lyf. …
Árið 2010 fengu 3% af yngri en 18 ára ADHD-lyf. Árið 2019 voru það 6%. Sem sagt 100% aukning, skrifa höfundar greinarinnar. mbl.is/Sverrir

Áskoranir:

Í samfélaginu í dag er brýn þörf á meira samtali og samveru milli foreldra og barna. Mikið stress, áreiti og spenna sem og mikil skjánotkun hefur ekki jákvæð áhrif á okkur, hvorki fullorðna né börn. Eftir hrun 2008 sjáum við að staða okkar hefur sífellt versnað í alþjóðlegum mælingum á árangri 14-15 ára unglinga í skóla. Okkur hefur hrakað í lestri/lesskilningi. Árið 2000 komust 15% þeirra ekki á hæfniviðmið 2 eða hærra, sem sagt gátu ekki lesið sér til gagns. Árið 2009 var talan komin í 17% og 2018 í 26%, þar af náðu 34% drengja og 19% stúlkna ekki viðmiði 2. Sem sagt á 18 árum mínus 11 prósentustig. Okkur hefur líka hrakað í náttúrufræði. Frá því að 16% náðu ekki hæfniviðmiði 2 árið 2000, 18% árið 2009 og í 25% sem ekki náðu því viðmiði árið 2018 (mínus 9 prósentustig). Stærðfræðin hefur einnig farið niður á við, 13% náðu ekki hæfniviðmiði 2 árið 2000, 17% árið 2009 og 21% árið 2018 (mínus 8 prósentustig) (sjá mynd 1).

Minna rætt um að á sama tíma hefur átt sér stað gífurleg aukning hjá börnum og ungmennum á notkun tauga- og geðlyfja á Íslandi. Við vitum hins vegar ekkert um samspil þessara þátta. Þetta er hugsanleg afleiðing kreppunnar sem væri þess virði að skoða betur. Skoðum þær tölur nánar.

Tauga- og geðlyf:

Tölur frá árinu 2016 og 2017 sýna fram á mikla notkun á tauga- og geðlyfjum fyrir íslensk börn og unglinga (sjá mynd 2).

0-4 ára: 3,3 % drengja og 2,8% stúlkna árið 2016.

(Noregur; drengir 0,75% og stúlkur 0,7%).

5-9 ára: 12,3% drengja og 6,1% stúlkna árið 2016.

(Danmörk; drengir 2% og stúlkur 1%).

10-14 ára: 21% drengja og 14% stúlkna árið 2017.

(Svíþjóð; drengir 9% og stúlkur 7%).

Svefnlyf:

5-9 ára: Árið 2010 taka 0,23% svefnlyf. Árið 2015 eru það 0,9%.

2,1% drengja tekur svefnlyf 2015 (en 1% í Noregi).

0,85% stúlkna taka svefnlyf 2015 (0,56% í Noregi).

10-14 ára: Árið 2010 taka 0,46% svefnlyf. Árið 2015 taka 1,8% svefnlyf.

3,1% drengja tekur svefnlyf 2015 (en 1,6% í Noregi).

1,9% stúlkna taka svefnlyf 2015 (1% í Noregi).

ADHD-lyf:

Árið 2010 fengu 3% af yngri en 18 ára ADHD-lyf. Árið 2019 voru það 6%. Sem sagt 100% aukning. Ef við skoðum aldurshópinn 5-9 ára, 10-14 ára og 15-17 ára þá sjáum við eftirfarandi:

5-9 ára: 3,8% drengja nota ADHD-lyf árið 2010 og 6% árið 2019.

1,8% stúlkna árið 2010 og 2,3% árið 2019.

10-14 ára: 8,3% drengja nota ADHD-lyf árið 2010 og 15% árið 2019.

2,8% stúlkna 2010 og 7% árið 2019.

15-17 ára: 5,5% drengja nota ADHD-lyf árið 2010 og 12,5% árið 2019.

3% stúlkna árið 2010 en 7,5% árið 2019.

Á 9 árum hefur orðið ca. 100% aukning á notkun ADHD-lyfja hjá börnum og unglingum (sjá mynd 3). Sérlega alvarlegt er að 6% drengja 5-9 ára og 15% drengja 10-14 ára nota ADHD-lyf.

Vísindi:

Við sjáum mikinn kynjamismun á notkun ADHD-lyfja hjá börnum og unglingum. Rannsóknir Geschwind og Galaburda hafa sýnt að testósterónhormón sem drengir hafa í mun meira magni en stúlkur getur haft áhrif á þróun heilastarfsemi þeirra í fósturlífinu. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að drengir fái ríkulegt áreiti, eins og að það sé talað við þá, jafn mikið og talað er við stúlkur. En rannsóknir sýna að meira er talað við stúlkur en drengi frá fæðingu. Einnig er mikilvægt að drengir fái mikla þjálfun á bókstaf hljóða tengingu í byrjun lestrarkennslu. En fræðimenn telja að áreitið, formið á bókstafnum, fari inn í hægra heilahvel, þaðan yfir hvelatengsl (e. corpus callosum) í vinstra heilahvel þar sem hljóðið myndast. Þannig að sú þjálfun er gífurlega mikilvæg fyrir bæði kynin og sérlega fyrir drengi. Þessi áhrif testósteróns á heilastarfsemi gera drengi viðkvæmari og auka möguleikann á að þeir lendi í vanda með hreyfiþróun og málþróun, greinist oftar með ADHD og vandmál með lestur. Aukið testósterón getur líka þýtt meiri þörf fyrir líkamlega útrás og að minnka þurfi kyrrsetu. Þess vegna hafa rannsóknir mælt með breyttu skipulagi skóladagsins með meiri áherslu á daglega hreyfingu í upphafi hans (sjá mynd 4). Eftir góða hreyfingu skapast betri ró og einbeiting sem er góður grunnur fyrir nám.

Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi …
Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einnig er mælt með 10 mínútna pásu eftir 35-40 mínútna tíma. Fræðimenn hafa einnig mælt með aukinni daglegri hreyfingu í leikskólanum. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að stelpur alveg niður í 4 ára aldur eiga oft í meiri vandamálum/erfiðleikum með svefn en strákar. Þær eiga líka oftar í erfiðleikum tengdum streitu og sársauka á unglingsárum. Prófessor Paul Gilbert skrifaði bók sem kom út árið 2009 og heitir The Compassionate Mind. Þar leggur hann áherslu á mikilvægi samúðar, vingjarnleika og góðrar samveru og samtals fyrir heilastarfsemina. Hlý samvera hefur jákvæð áhrif á hormónastarfsemina. Hríðahormón (e. oxytocin) hefur áhrif á vellíðunartilfinningu okkar. Gilbert bendir á að þróun umhyggju, það að upplifa góðvild, hlýju og samúð er lykilatriði til að hjálpa okkur við að öðlast hamingju og tilgang með lífinu. Þessi upplifun hefur jákvæð áhrif á alla okkar starfsemi, minnkar streitu, styrkir ofnæmiskerfið og segja má að það sé einskonar vítamín fyrir heilastarfsemina. Jákvæð viðbrögð, þegar einstaklingar eru að gera sitt besta eða ná að framkvæma það sem þeir ætluðu sér, eru einnig mjög mikilvæg. Þar eru foreldrar, þjálfarar og kennarar í lykilhlutverki.

Svava Þ. Hjaltalín.
Svava Þ. Hjaltalín. Ljósmynd/Aðsend

Möguleikar:

Gefum okkur tíma með börnum okkar og unglingum. Sköpum gæðastundir. Verum meðvituð um kynjamuninn og bregðumst við honum. Eflum hugarfar grósku á heimilum, skólum og í allri félagsstarfsemi. Ræktum jákvæð samskipti og notum jákvæða styrkingu í anda Csikszentmihalyi og jákvæðrar sálfræði. Þar sem áskoranir miðað við færni eru lykill að því að skapa ástríðu, sterkan áhuga og þar með á námi. Finnum okkar ástríðu á ákveðnu sviði/þema og færni og þróum hana.

Foreldrar/forráðamenn:

Hlúið að börnum ykkar og unglingum. Ræktið samveru með ykkar barni/unglingi og eflið/ræktið með þeim virðingu og tillitssemi svo hegðun þeirra sé til fyrirmyndar. Farið í göngutúr saman, æfið saman eða farið í sund saman. Spilið á spil eða farið í brettaspil (til dæmis Trivial Pursuit). Lesið bækur saman. Leggið áherslu á samveruna og verið til staðar. Gætið að jafnvægi frítíma og tómstunda. Hugið að hollustu/hollri næringu og nægum svefni og að daglegur skjátími sé hæfilegur.

Skólar:

Þeir sem stjórna skólum landsins geta unnið að því að breyta skipulagi skóladagsins með niðurstöður rannsókna í huga, beina meiri fókus á grunnleggjandi færni, auka hreyfingu á hverjum skóladegi og gefa nemendum meira val. Mikilvægt er að brjóta upp skóladaginn og huga að vellíðan og byggja upp gott sjálfstraust. Nauðsynlegt er að taka mið af kynjamun.

Ráðamenn:

Gegna veigamiklu hlutverki við að byggja upp þjóðfélag sem gefur fólki möguleika á mannsæmandi launum fyrir 37,5 stunda vinnuviku. Það að fólk þurfi að vinna mikið til að hafa ofan í sig og á kemur niður á góða samtalinu og tíma sem mikilvægt er að að verja með fjölskyldu og vinum. Tíminn fyrir börnin og unglingana verður oft af skornum skammti í hringiðu hvers dags. Við þurfum öll að rækta góða samtalið og nærveruna þar sem jákvæðni og hlýja er í hávegum höfð. Byggjum upp barnavænlegt samfélag og gefum af okkur til hins besta fyrir komandi kynslóðir. Staðan núna í þjóðfélaginu kemur til með að skapa áskoranir sem við megum ekki leiða hjá okkur.

Verið velkomin á Facebook-síðuna Vísindi og menntun. Þar má finna umfjöllun um rannsóknir sem geta nýst við skipulag skólastarfs og menntunar.

Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík, og Svava Þ. Hjaltalín grunnskólakennari.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »