Fyrstu mínúturnar mest stressandi

Falcon 9-eldflaugin ásamt geimferjunni Crew Dragon á skotpallinum í Flórída.
Falcon 9-eldflaugin ásamt geimferjunni Crew Dragon á skotpallinum í Flórída. AFP

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, mun fylgjast grannt með klukkan 20.33 í kvöld þegar geimferjunni Crew Dragon verður skotið á loft frá Flórída, ef veður leyfir, með þá Bob Behnken og Doug Hurley um borð. 

Fyrirtæki Elon Musk, SpaceX, stendur á bak við þetta fyrsta mannaða geimskot frá Bandaríkjunum í áratug. Falcon 9, eld­flaug SpaceX, verður notuð til að koma geim­far­inu til Alþjóðlegu geim­stöðvar­inn­ar. „Þetta er þróun sem ég er búinn að fylgjast með mjög lengi,“ segir Ari Kristinn, sem starfaði í áratug hjá Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, spurður hvað honum finnist um þennan atburð.

Geimfararnir Robert Behnken (til vinstri) og Douglas Hurley á blaðamannafundi.
Geimfararnir Robert Behnken (til vinstri) og Douglas Hurley á blaðamannafundi. AFP

Starfaði hjá NASA þegar Columbia fórst

Ari starfaði hjá NASA þegar geimskutlan Columbia fórst árið 2003 með sjö manns um borð. Þetta var annað banaslysið tengt geimferðaáætlun Bandaríkjanna en árið 1986 sprakk geimskutlan Challenger skömmu eftir flugtak.

Í framhaldinu fór umræða í gang hjá NASA um að leggja geimskutlunum og lagði stofnunin af stað í þróun nýs mannaðs geimfars og fór mikill tími í það, að sögn Ara. Ákveðin umbreyting varð þegar NASA færði sig yfir í að þjónusta sporbaug um jörðu með því að kaupa þjónustu af fyrirtækjum í stað þess að gera hlutina sjálft og þar liggur grunnurinn að geimskotinu í kvöld. Síðan þá hafa fyrirtæki á borð við SpaceX og Boeing þróað geimför sem hafa nýst til að fara með vistir og búnað í Alþjóðlegu geimstöðina og til að koma gervihnöttum á loft.

Elon Musk, stofnandi SpaceX.
Elon Musk, stofnandi SpaceX. AFP

Stórt skref í kvöld 

Í fyrsta skipti í kvöld mun einkafyrirtæki koma geimförum á loft og að sögn Ara er það stórt skref. „Þetta er stór dagur varðandi hvernig hlutir eru að þróast í geimferðum,“ segir hann og nefnir að NASA hafi verið að kaupa þjónustu af Rússum til að koma sínu fólki upp í Alþjóðlegu geimstöðina. Núna á að færa verkefnið aftur til bandarískra einkaaðila og er þetta lokaskrefið í langri þróun þess efnis.

AFP-fréttastofan greinir frá því að ákvörðunin um að láta einkaaðila þróa geimför hafi verið mun hagkvæmari heldur en að eyða tugum milljarða dollara í slíkt verkefni, sem Bandaríkjastjórn hafði gert í áratugi. NASA greiddi SpaceX yfir þrjá milljarða dollara fyrir að hanna, smíða, gera prófanir á og starfrækja Crew Dragon fyrir næstu sex ferðir sem eru fyrirhugaðar út í geiminn. 

Aðspurður segir Ari mannaðar geimferðir mjög dýrar en samt er þetta verkefni mun ódýrara en á árum áður þegar miðað var við að hvert geimskot geimskutlunnar Columbia kostaði um hálfan milljarð dollara. Hún fór alls hátt í 27 ferðir út í geiminn áður en hún fórst árið 2003. 

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, við hátíðlega athöfn …
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, við hátíðlega athöfn í fyrra. Ljósmynd/Eva Björk

Má lítið út af bregða 

Inntur eftir því hvernig fer í kvöld segist hann vona að vel gangi. Tilraunaskotin án fólks hafi gengið vel sem sé skilyrði fyrir því að lagt er af stað í þetta geimskot. „En það er alltaf áhætta í geimferðum. Það má lítið út af bregða en ég held að undirbúningurinn hafi verið góður og það eiga allir allt sitt undir því að vel takist til,“ segir hann. Fyrstu mínúturnar í kvöld, allt upp í hálftíma, eru mest stressandi upp á að eitthvað fari úrskeiðis, að sögn Ara. Eftir að geimferjan er komin út fyrir andrúmsloftið og á sporbaug verður hægt að anda léttar.

AFP

Endurnýta eldflaugarnar

Hann segir viðfangsefnið í kvöld vera mun flóknara fyrir einkageirann en að koma gervihnöttum út í geim. Nálgun SpaceX sé engu að síður töluvert frábrugðin því sem áður hefur verið gert og „ofsalega spennandi“. Á hann þar við að fyrirtækið endurnýtir geimförin sín, þar með talið eldflaugarnar. Til dæmis hafa hlutar eldflaugarinnar Falcon 9 lent sjálfvirkt undir stjórn gervigreindar aftur á eldflaugapöllum. „Það er alveg stórkostleg sjón að sjá. Í staðinn fyrir að henda öllu í hafið lenda þeir þessu aftur, hreinsa, fylla á eldsneytið og geta endurnýtt,“ greinir hann frá og bætir við að eitt af lykilmarkmiðum SpaceX hafi verið að lækka kostnað við geimferðir.

Mars 2024 óraunhæft markmið

Notkun Crew Dragon-geimferjunnar er fyrsti liður í áætlun Bandaríkjanna um að senda mannað geimfar til Mars árið 2024. Ari segir ótrúlegt hvað SpaceX hafi tekist að gera og að vel gerlegt sé að senda ómannað geimfar til Mars innan þessa tímaramma. Mannað geimfar til plánetunnar segir hann aftur á móti margfalt flóknara viðfangsefni og að töluverður tími sé í að það takist. Því sé árið 2024 ekki raunhæf tímasetning. Hann segir spennandi að SpaceX, Evrópska geimferðastofnunin (ESA) og fleiri skuli vera að afla sér upplýsinga um Mars enda munum við á endanum komast þangað. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Melania Trump forsetafrú skömmu eftir lendingu …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Melania Trump forsetafrú skömmu eftir lendingu í Flórída en þau verða viðstödd geimskotið. AFP

„Ægilegur missir“

Spurður nánar út í áfallið þegar Columbia fórst segir Ari það hafa verið verulegt áfall. „Það vildi þannig til að ég var að vinna líka tengt Houston þar sem mönnuðum geimförum er stýrt og þetta er ægilegur missir, ekki bara af fólkinu heldur tók þetta í burtu það sem fólk var að vinna við og trúði á að væri framtíðin. En þá verður bara að þróa annað í staðinn,“ segir Ari og nefnir að auk þess að vinna með einkafyrirtækjum í tengslum við sporbaug um jörðu segir hann að NASA sé að þróa eldflaugar og geimför sem eiga að koma fólki aftur til tunglsins og til Mars.

Fylgst verður með geimskotinu á mbl.is í kvöld en útsending er hafin á YouTube:

mbl.is