Beinir spjótum sínum að samfélagsmiðlum

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ætlar að skrifa undir forsetatilskipun sem beinist að samfélagsmiðlum samkvæmt upplýsingum frá forsetaembættinu. Þetta kemur í kjölfar hótana forsetans um að loka sam­fé­lags­miðlum eft­ir að Twitter merkti tvö tíst hans sem mis­vís­andi. Sakar hann miðlana um að reyna að þagga niður í íhaldsmönnum. 

Ekki hefur verið upplýst hvað felst nákvæmlega í tilskipuninni en von er á að Trump skrifi undir hana síðar í dag að því er segir í frétt BBC.

Áður en Trump fór frá Washington til Flórída til að fylgjast með geimskoti, sem var síðan frestað vegna slæms veðurs, sakaði Trump Twitter enn á ný og aðra samfélagsmiðla um hlutdrægni án þess að leggja fram nokkur gögn því til sönnunar. 

Trump skrifaði gagnrýni sína á Twitter og lokafærslan er sú að samfélagsmiðlar séu endanlega gengnir af göflunum.

 Forstjóri Twitter, Jack Dorsey, svaraði gagnrýni varðandi staðreyndavakt miðilsins og stefnu Twitter í þessum málaflokki í nokrum færslum á Twitter. Meðal annars að þau muni áfram benda á rangar og misvísandi upplýsgar um kosningar í heiminum.  

Á þriðjudag skrifaði Trump svipaða færslu á Facebook um kjörseðlana og þar var færslan ekki merkt af samfélagsmiðlinum sem misvísandi.

Í viðtali við Fox News í gær sagði forstjóri Facebook, Mark Zuckerberg, að þetta væri ekki hlutverk samfélagsmiðla en Fox mun síðar í dag birta viðtalið við Zuckerberg í heild.

Fox News

Undanfarin ár hefur Twitter hert reglur um efni sem þar birtist á sama tíma hefur miðillinn mætt gagnrýndi um að láta upplýsingaóreiðu og falsaðganga óáreitta. 

Einhver af stærstu tæknifyrirtækjum Bandaríkjanna hafa einnig verið sökuð um brot á samkeppnislögum og brot á persónuverndarrétti notenda. Apple, Google, Facebook og Amazon eru til rannsóknar hjá bæði alríkis- og ríkissaksóknurum sem og bandarískrar þingnefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina