Ákveðin tímamót í sögu geimferða

Bob Behnken og Doug Hurley halda út í geim í …
Bob Behnken og Doug Hurley halda út í geim í kvöld, gangi allt að óskum. AFP

Gangi allt að óskum mun bandaríska fyrirtækið SpaceX senda tvo geimfara bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, á braut um jörðu klukkan 19:22 í dag að íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með geimskotinu á vef NASA og einn þeirra sem mun ekki láta þann stórviðburð fram hjá sér fara er Sævar Helgi Bragason, kenndur við stjörnur. 

Til stóð að geimflauginni yrði skotið á loft á þriðjudag en því var frestað vegna eldingahættu, en Jim Bridenstine, forstjóri NASA, segir um helmingslíkur á að geimflaugaskotið geti farið fram í dag.

„Þetta eru ákveðin tímamót enda í fyrsta skipti síðan 2011 sem mönnum er skotið á loft frá Bandaríkjunum,“ segir Sævar. Það ár var geimferjuflota NASA lagt og var þar með endi bundinn á 30 ára fjórðu mönnuðu geimferðaáætlun stofnunarinnar, Space Shuttle Program.

„NASA samdi í kjölfarið við SpaceX og Boeing um byggingu geimflauga en SpaceX varð fyrri til að ljúka verkinu,“ segir Sævar. Auk þess að vera fyrsta mannaða geimferð Bandaríkjamanna í áratug, er þetta í fyrsta sinn sem einkafyrirtæki sendir fólk út í geiminn.

Allt klárt til brottfarar.
Allt klárt til brottfarar. AFP

Skotið verður á loft frá Kennedy-stöðinni í Flórída en þaðan liggur leiðin upp í alþjóðlegu geimstöðina. Geimfararnir tveir, Doug Hurley og Bob Behnken, munu dvelja í geimstöðinni í einhverjar vikur eða hugsanlega mánuði en dagsetning heimferðarinnar hefur ekki verið ákveðin. „Það eina sem hefur verið ákveðið er að þeir koma heim fyrir 21. september,“ segir Sævar.

Í geimnum er engin dauð stund, segir Sævar. Þar munu geimfararnir nýta tímann til að prófa að stýra geimskipinu og framkvæma ýmsar tilraunir sem tengjast meðal annars þyngdarleysi.

Mikill undirbúningur er að baki og margar hefðir tengdar geimferðunum. Sævar nefnir sem dæmi að geimfarar NASA borði alltaf sama morgunmatinn á stóra deginum, nautasteik og egg. „Það er gert bæði vegna þess að það er næringarrík máltíð sem gefur góða fyllingu í magann, svo þeir verði ekki svangir í bráð, en líka vegna þess að hann myndar mjög lítinn úrgang.“

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Endurnýttar geimferjur

Ein af þeim nýjungum sem fylgja geimferjum SpaceX er að þær eru endurnýtanlegar. Gríðarlegur kostnaður er af geimferðum og líkt og Elon Musk, stofnandi SpaceX, hefur nefnt má spara umtalsverðar fjárhæðir ef hægt er að nýta þær aftur. Hluti flaugarinnar fellur af í um 60-80 kílómetra hæð og lendir á jörðu niðri í nokkurra hundraða kílómetra fjarlægð frá skotstað eftir að hafa ferðast í fleygboga. „Þetta er eins og við myndum skjóta geimflaug frá Reykjavík og hún myndi síðan lenda á Akureyri,“ segir Sævar.

mbl.is