Skipta blaðamönnum út fyrir vélmenni

Vefsíðan MSN er enn starfrækt.
Vefsíðan MSN er enn starfrækt. AFP

Tæknifyrirtækið Microsoft hefur sagt upp um 50 blaðamönnum sem vinna á fréttasíðunni MSN en störf þeirra verða héðan í frá unnin af gervigreindum vélum. Seattle Times greinir frá.

Blaðavélarnar munu þó ekki sjá um að skrifa fréttir. Microsoft borgar stærstu vefmiðlum Bandaríkjanna fyrir að fá að birta efni þeirra á vefnum MSN, en blaðamenn MSN hafa hingað til séð um að raða fréttunum, velja á þær fyrirsagnir og myndskreyta. Nú fá vélarnar þetta hlutverk. Teymi mennskra blaðamanna verður þó áfram í vinnu hjá vefmiðlinum.

Í yfirlýsingu frá Microsoft segir að líkt og hjá öllum fyrirtækjum sé starfsemi þess metin með reglubundnum hætti. Þetta geti orðið til þess að ákveðið sé að fjárfesta meira í einhverjum deildum og minna í öðrum. Ákvörðunin hafi ekkert með kórónuveiruna að gera.

„Það er niðurdrepandi að haldið sé að vélar geti komið í okkar stað, en þetta gerist nú samt,“ segir einn þeirra blaðamanna sem missti vinnuna í samtali við Seattle Times. Sumir hinna brottreknu hafa varað við að gervigreind sé ekki endilega fær um að fylgja ströngum ritstjórnarleiðbeiningum, og gæti til að mynda hleypt í gegn óviðeigandi fréttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert