Hjartsláttartruflanir og aðrar aukaverkanir

Glímt við kórónuveirufaraldur á Landspítala í apríl.
Glímt við kórónuveirufaraldur á Landspítala í apríl. Ljósmynd/Landspítalinn

„Hýdroxíklórókín er gamalt lyf sem er á markaði á Íslandi undir nafninu Plaquenil. Farið var að nota lyfið við malaríu upp úr 1950.“ Þetta kemur fram í svari Magnúsar Jóhannssonar, prófessors emeritus í líflyfjafræði við Háskóla Íslands, við spurningu á Vísindavefnum.

Þar er spurt: „Hvað er hýdroxíklórókín og gagnast það við COVID-19?“

Fram kemur í svarinu að eldra náskylt lyf, klórókin, hafi komið á markað upp úr 1930 en það er ekki selt hér á landi. Þessi tvö lyf hafa svipaðar verkanir og eru þau notuð við nokkrum gigtarsjúkdómum, auk þess að gagnast við sumum tegundum malaríu.

„Klórókín og hydroxíklórókín hindra vöxt kórónuveira í tilraunaglösum (in vitro) og voru niðurstöður rannsókna sem sýndu það fyrst birtar 2004 og 2005. Snemma í COVID-19-faraldrinum var því farið að prófa þessi lyf í klíniskum rannsóknum (rannsóknum á fólki) þó að engar niðurstöður hefðu verið birtar sem sýndu ótvírætt gagn af þessum lyfjum. Fljótlega var farið að birta rannsóknir sem sýndu misvísandi niðurstöður og voru auk þess litlar og af mismunandi gæðum,“ segir í svarinu.

Þar er minnst á ritgerð sem birtist í tímaritinu The Lancet 22. maí síðastliðinn þar sem fjallað er um árangur meðferðar á COVID-19-sjúklingum með klórókíni eða hýdroxíklórókíni með eða án sýklalyfs. Rannsóknin náði til rúmlega 96 þúsund sjúklinga með COVID-19.

„Niðurstöðurnar eru í stuttu máli þær að þó svo að lyfin þolist yfirleitt vel hjá sjúklingum með malaríu eða gigtsjúkdóma gegnir ekki sama máli hjá sjúklingum með COVID-19. Allar fjórar lyfjablöndurnar gáfu verri útkomu en þegar ekkert lyf var notað og dánarhlutfall var hærra. Mest bar á hjartsláttartruflunum en ýmsar aðrar alvarlegar aukaverkanir komu fram,“ skrifar Magnús.

Í framhaldinu gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin út yfirlýsingu um að hún væri hætt þátttöku í rannsóknum þar sem umrædd malaríulyf væru notuð og ekki væri mælt með notkun þessara lyfja við COVID-19 nema hugsanlega í klínískum rannsóknum og með ströngum skilyrðum og góðu eftirliti. Þessi ákvörðun kann þó að verða endurskoðuð þegar fleiri niðurstöður liggja fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert