Sköllóttir karlmenn í meiri hættu

Margir menn verða sköllóttir á seinni árum ævinnar.
Margir menn verða sköllóttir á seinni árum ævinnar.

Sköllóttir karlmenn eru líklegri en vel hærðir karlmenn til að fá alvarleg einkenni kórónuveiru. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í rannsókn prófessorsins Carlos Wambier við Brown-háskóla í Bandaríkjunum. Frá þessu er greint á vef the Telegraph.

Samkvæmt gögnum prófessorsins eru bein tengsl milli sköllóttra karlamanna og alvarlegri veirusýkingar af völdum kórónuveirunnar. Hefur umræddur áhættuþáttur fengið heitið „Gabrin-tengslin“, en það er í höfuðið á Dr. Frank Gabrin, sem var fyrsti sköllótti læknirinn til að láta lífið sökum kórónuveirunnar.

Prófa ný lyf gegn veirunni

Gögn úr faraldrinum hafa fram til þessa bent til þess að karlmenn séu líklegri en konur til að deyja vegna veirunnar. Eru karlkynshormónin andrógen, þar á meðal testósterón, talin auðvelda veirunni að ráðast á frumur líkamans. Hafa framangreind gögn því kallað fram spurningar um hvort hægt sé að draga úr mætti umræddra hormóna og þannig vinna gegn veirunni.

„Við höldum að andrógen-hormón eða karlkynshormón auðveldi vírusnum að ráðast á frumur líkamans. Við teljum að skalli gefi okkur einna mestu vísbendinguna um hvort veirusýkingin verði alvarleg,“ segir Charles Wambier, en bandaríski vísindamaðurinn Matthew Rettig vinnur nú að rannsókn þar sem kanna á hvort lyf sem draga úr framangreindum hormónum virki í baráttunni gegn kórónuveirunni. 

mbl.is