Tíu nýjar hraðhleðslustöðvar loks væntanlegar

Fyrirhugað er að bæta við tíu nýjum rafhleðslustöðvum af nýrri …
Fyrirhugað er að bæta við tíu nýjum rafhleðslustöðvum af nýrri gerð á þessu ári.

Tafir urðu á komu nýrra hraðhleðslustöðva Orku náttúrunnar vegna kórónuveirunnar en nú hafa tvær stöðvar þeirrar gerðar verið teknar í notkun, önnur við fjölorkustöð Orkunnar við Miklubraut og hin við höfuðstöðvar Orku náttúrunnar við Bæjarháls.

„Seinkunin sem við erum að upplifa er aðallega vegna þess að framleiðslan stöðvaðist erlendis hjá framleiðendum sem við erum að kaupa af,“ sagði Hafrún Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri hleðslunets ON.

Hafrún Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri hleðslunets Orku náttúrunnar.
Hafrún Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri hleðslunets Orku náttúrunnar. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Stöðvarnar ættu að vera kærkomin viðbót fyrir rafbílaeigendur sem eru nú fleiri en áður. „Þetta skiptir máli fyrir þá sem eru á nýjustu kynslóð af rafbílum eins og til dæmis Teslu,“ sagði hún. 

Væntingar fyrirtækisins séu að klára uppsetningu á öllum 150 kW stöðvunum í sumar. „Framleiðandinn mun afhenda okkur stöðvarnar á næstu vikum og mánuðum,“ sagði hún. 

mbl.is