Twitter lokar á áróður Kínverja

AFP

Twitter tilkynnti í dag að miðillinn hefði eytt yfir 170 þúsund reikningum sem tengjast upplýsingaóreiðu-herferð kínversku ríkisstjórnarinnar sem beinist að hreyfingu mótmælenda í Hong Kong og því að sverta Bandaríkin.

Greint var frá þessu á sama tíma og annað bandarískt tæknifyrirtæki, fjarfundafélagið Zoom, greindi frá því að það hafi farið að kröfum stjórnvalda í Kína um að loka fyrir aðgang bandarískra og Hong Kong-aðgerðasinna sem söfnuðust saman á Zoom til það minnast fjöldamorðanna á Tiananmen-torgi.

Twitter er líkt og YouTube, Google og Facebook bannað í Kína en þar beita stjórnvöld „Kínamúr“ (eldvegg) til að koma í veg fyrir aðgengi almennings að fréttum og öðru á þessum miðlum. Kínverskir diplómatar og ríkisfjölmiðlar hafa aftur á móti ruðst inn á slíka samfélagsmiðla á undanförnum árum til þess að koma skoðunum stjórnvalda á framfæri. 

Rannsakendur og nokkrar vestrænar ríkisstjórnir hafa lýst ótta við að kínversk yfirvöld séu að með þessu að dreifa skilaboðum og upplýsingaóreiðu í svo miklum mæli að það kaffæri aðra umræðu.

Samkvæmt upplýsingum frá Twitter voru færslurnar skrifaðar á kínversku og þar dreift landfræðipólitískum áróðri kínverska kommúnistaflokksins. Á sama tíma var dreift villandi áróðri um stöðuna í Hong Kong.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert