Lyf gegn kórónuveirunni ónotuð á Landspítala

Landspítalinn hefur undir höndum lyfið favípíravír (Avigan) sem var gjöf …
Landspítalinn hefur undir höndum lyfið favípíravír (Avigan) sem var gjöf frá japönskum stjórnvöldum. Ekki hefur þurft að grípa til notkunar þess enn sem komið er. Ljósmynd/Vísindavefurinn

Landspítalinn hefur ekki þurft að grípa til notkunar á veirulyfinu favípíravír en spítalanum voru færðar 12.200 töflur að gjöf frá japönskum stjórnvöldum í lok apríl. Þá hefur spítalinn ekki heldur þurft að nota lyfið remdesivír við meðferð sjúklinga sem sýkst hafa af kórónuveirunni, en lyfið fékk spítalinn sé að kostnaðarlausu vegna þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi. 

Þetta er meðal þess fram kemur í nýju svari á Vísindavef Háskóla Íslands hvað varðar notkun lyfsins favípíravír. 

Lyfið, sem er einnig þekkt undir nafninu Avigan, er fram­leitt af lyfja­fyr­ir­tæk­inu Fujifilm og það var jap­ansk-ís­lenska fyr­ir­tækið Tak­an­awa sem hafði milli­göngu um inn­flutn­ing­inn. Töflurnar nægja sem meðferð fyr­ir 100 sjúk­linga sem hafa veikst illa af nýju kór­ónu­veirunni.

Áhugi á lyfinu vaknaði snemma í kórónuveirufaraldrinum, en lyfið kemur í veg fyrir að sumar veirur geti fjölgað sér í spendýrafrumum og hefur hingað til nær eingöngu verið notað við inflúensu og sú notkun hefur að mestu verið bundin við Japan, en þar var lyfið þróað og þar hefur það verið með markaðsleyfi síðan 2014. 

Niðurstöður frekari rannsókna liggja fyrir í haust

Prófanir hafa farið fram þar sem virkni lyfsins gegn veirunni sem veldur COVID-19 var rannsökuð. Magnús Jóhannsson, prófessor emeritus í líflyfjafræði við Háskóla Íslands, segir í svari sínu að fyrstu niðurstöður gefi til kynna að lyfið geti gert gagn við COVID-19. Þessar fyrstu rannsóknir eru hins vegar takmarkaðar og ekki er hægt að draga af þeim víðtækar ályktanir. 

Í mars og apríl voru settar í gang stærri og vandaðri rannsóknir á Ítalíu, í Bandaríkjunum, Japan, Bretlandi, Rússlandi, Indlandi og fleiri löndum. Ekki er að vænta endanlegra niðurstaðna af þessum rannsóknum fyrr en með haustinu. „Staðan núna er því sú að fyrir liggja ótryggar vísbendingar um að favípíravír geti gert gagn við COVID-19 en ekki fást skýr svör fyrr en eftir einhverja mánuði,“ segir Magnús í svari sínu. 

Þá er einni óvissa með aukaverkanir lyfsins þangað til miklu fleiri hafa verið meðhöndlaðir. Sterkar vísbendingar eru til að mynda um að favípíravír geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

mbl.is