Stemning, nám og árangur

Hreyfing, eins og; íþróttir, sund, dans, útileikur, göngutúr eða skokk …
Hreyfing, eins og; íþróttir, sund, dans, útileikur, göngutúr eða skokk í byrjun skóladagsins skapar betri einbeitingu, veitir vellíðan og stuðlar að betri sjálfsmynd nemenda, segja greinarhöfundar. Styrmir Kári

Stemningu má skilgreina sem það félagslega andrúmsloft sem umlykur okkur, mótar okkur og stýrir, án þess að við veitum því kannski sérstaka athygli. Stemningin myndast í hópnum og virkar eins og ósýnilegt afl sem sendir skilaboð til meðlima hópsins um væntingar, vinnubrögð og venjur hópsins sem einstaklingar mótast svo af – í gegnum félagslega smitun – og tileinka sér í starfi hópsins. Stemningin getur verið jákvæð og uppbyggileg, og ýtt öllum meðlimum hópsins upp á æðra plan, eða neikvæð og óæskileg, og dregið alla meðlimi hópsins niður að lægsta samnefnara hópsins. Þetta á við um stemningu sem myndast í skólastofunni, á íþróttaæfingunum, á tónleikunum sem við sækjum, nú eða bara heima við. Stemningin hefur þannig bein áhrif á líðan, væntingar og hegðun allra meðlima hópsins, og í framhaldinu á færni þeirra og árangur.

Stemning og færni

Nýleg rannsókn Yeger o.fl. sem birtist í Nature nú fyrir skömmu sýndi til dæmis hvernig stemningin í skólanum skiptir máli varðandi að nemendur geti tileinkað sér nýja færni í náminu. Rannsóknin sýndi þannig hvernig stutt inngrip, þar sem nemendum voru kennd grundvallaratriði um gróskuhugarfar (e. growth mindset), hafði jákvæð áhrif á námsárangur nemenda í fjölbreyttum námsgreinum. Það sem kom enn fremur fram var að í þeim skólum þar sem ríkti meiri jafningjastuðningur við að nemendur tækjust á við áskoranir (e. challenge-seeking), varð meiri bæting í námsárangri nemenda en í skólum þar sem jafningjastuðningur var minni við að takast á við slíkar áskoranir. Með öðrum orðum: Í þeim skólum þar sem stemningin var almennt jákvæðari fyrir því að nemendur prófuðu og tileinkuðu sér nýja hluti sýndu nemendur meiri framfarir í náminu eftir kynninguna á gróskuhugarfari, burtséð frá gæðum skólans. Þessar niðurstöður stemma vel við kenningar Mihaly Csikszentmihalyi og K. Anders Ericsson um mikilvægi áskorana fyrir bættan árangur sem og kenningar Nicholas Christakis um hvernig félagsleg smitun virkar í raun sem ósýnilegt afl sem ýtir einstaklingum í ákveðnar áttir.

Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði.
Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði. Árni Sæberg

Sífellt er verið að ræða um menntamál, skólana okkar og stöðu okkar í PISA. Ef þróunin síðustu áratugina er skoðuð má sjá að skóladagurinn hefur lengst. Lengingin felst sem oftast í að fleiri fög eru kennd á sviði hins bóklega. Það er ekki sama aukningin í tímum í íþróttakennslu eða sundi né í skapandi greinum eða tónlist. Nú síðast er verið að ræða um að fjölga tímum í íslensku vegna slæmrar stöðu í lesskilningsprófum PISA. En það má spyrja hvort magn sé endilega það sama og gæði? Fleiri tímar í málfræði eru til að mynda ólíklegir til þess að hjálpa þeim 26% nemenda sem komast ekki upp á hæfniviðmið 2 í PISA prófinu – þeim sem geta ekki lesið sér til gagns. Aðrar leiðir en fjölgun kennslustunda eru mögulegar í þessu sambandi.

Markvissari þjálfun

Það mætti til dæmis huga betur að markvissari þjálfun nemenda í lykilfögum í náminu með því að skapa forsendur sem ýta almennt undir áhuga nemenda fyrir skólastarfinu sem slíku og gera nemendum betur kleift að nýta skóladaginn sem skyldi. Í þessu samhengi hafa komið upp hugmyndir um breyttar áherslur í skipulagi skóladagsins sem fela það í sér að brjóta hann meira upp en jafnan er gert, sem gæti hvort í senn stuðlað að aukinni orku og einbeitingu nemenda í náminu sem og skapað uppbyggilega stemningu meðal nemenda fyrir skólastarfinu. Tvær hugmyndir koma fljótt á litið fram sem gætu haft jákvæð áhrif í þá átt. Hreyfing fyrir hádegi og valtími eftir hádegi.

Jákvæð áhrif hreyfingar

Hreyfing eins og íþróttir, sund, dans, útileikur, göngutúr eða skokk í byrjun skóladagsins eykur einbeitingu, veitir vellíðan og stuðlar að betri sjálfsmynd nemenda. Eftir hreyfingu eru nemendur betur í stakk búnir að einbeita sér að verkefnum dagsins og ná þannig betri tökum á bóknámsfögum en ella. Valtíminn, sem stundum er nefndur ástríðutíminn, gæti svo falist í að nemendur velji sér þema í skapandi starfi, eins og; tónlist, skák, myndlist, leiklist eða einhverju slíku sem bæði skapar eftirvæntingu meðal nemenda og veitir þeim aukna orku og kraft þegar líður á skóladaginn. Með því að hafa ástríðutíma eftir hádegi, þegar námsorka nemenda er hvað minnst, mætti þannig betur fullnýta þau tækifæri sem skóladagurinn felur í sér en jafnan er raunin.

Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði.
Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði. Kristinn Magnússon

Þegar litið er til náms barna og ungmenna er mikilvægt að huga sérstaklega að þeirri stemningu sem skapast í skólunum með heildrænum hætti, þ.e. þessu félagslega andrúmslofti sem stýrir því hvort námið þykir spennandi, áhugavert, skemmtilegt, nú eða mikilvægt í augum nemenda. Jákvæð og uppbyggileg stemning í skólanum getur hreyft við nemendum, skapað orku og magnað upp áhuga þeirra fyrir viðfangsefnunum. Það ætti því að vera eitt af meginhlutverkum skólastjórnenda og kennara að vinna að því að skapa jákvæða og uppbyggilega stemningu meðal nemenda fyrir skólastarfinu – eins og til dæmis lestri – því þetta ósýnilega afl sem stemningin leysir úr læðingi getur ekki einungis haft jákvæð og uppbyggileg áhrif á líðan, frammistöðu og árangur sumra nemenda, heldur smitast þau til allra. Þær hugmyndir sem lagt er upp með í þessari grein, að skapa stemningu og auka orku nemenda í skólastarfinu, með því að auka líkamlega hreyfingu nemenda og fá inn ástríðutíma, gætu því reynst mikilvægar breytingar á formi skóladagsins sem gagnast nemendum í öllu því sem þeir taka sér fyrir hendur í skólanum, hvort sem um er að ræða að ná tökum á lestri eða færni í smíði.

Eftir Hermund Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði, og Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »