Gæti sniðganga gert út af við Facebook?

Facebook aflar langstærstum hluta tekna sinna með auglýsingasölu.
Facebook aflar langstærstum hluta tekna sinna með auglýsingasölu. AFP

Nokkur fjöldi stórfyrirtækja hefur brugðist við áskorunum herferðarinnar Stop Hate for Profit um að hætta auglýsingum á samfélagsmiðlarisanum Facebook. 

Meðal þeirra fyrirtækja sem hafa ákveðið að sniðganga Facebook vegna slakra regla samfélagsmiðilsins þegar kemur að hvers kyns hatursorðræðu eru Coca-Cola, Starbucks, Adidas og Ford.

En hefur sniðganga þessara aðila áhrif á Facebook? Stutta svarið er já, en samkvæmt umfjöllun BBC hafa þessar aðgerðir mun minni áhrif en margir telja.

Facebook aflar langstærstum hluta tekna sinna með auglýsingasölu og síðastliðinn föstudag féllu hlutabréf í Facebook um 8%, auk þess sem orðspor samfélagsmiðilsins hefur hlotið talsverða hnekki vegna meints skorts á siðareglum.

Stóra spurningin er hins vegar hvort sniðgangan nú hafi raunverulega áhrif á samfélagsmiðlarisann til framtíðar, en skemmst er að minnast þess þegar fjöldi auglýsenda greip til þess ráðs að sniðganga YouTube árið 2017 þegar í ljós kom að samfélagsmiðillinn setti auglýsingar við rasísk og hómófóbísk myndskeið. Þetta virðist hins vegar gleymt og grafið og rekstur YouTube, undirfyrirtækis Google, gengur eins og í sögu.

Þá segir í umfjöllun BBC að flest þessara stórfyrirtækja, sem ákveðið hafa að sniðganga Facebook, ætli aðeins að gera það í júlímánuði. Þá ber að hafa í huga að langstærstur hluti auglýsingatekna Facebook kemur ekki frá stórfyrirtækjum heldur frá litlum og meðalstjórum fyrirtækjum.

Þannig hefur CNN greint frá því að auglýsingatekjur Facebook frá þeim 100 fyrirtæki sem eyða mestu í auglýsingar á samfélagsmiðlinum nemi 4,2 milljörðum bandaríkjadala á ári — sem jafngildir aðeins um 6% af tekjum Facebook.

Hingað til hafa mjög fá meðalstór fyrirtæki tilkynnt um þátttöku sína í sniðgöngu Facebook og samkvæmt umfjöllun BBC hafa mjög fá lítil fyrirtæki efni á því að auglýsa ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina