25.000 komnir með ökuskírteinið í símann

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir …
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra eru á meðal þeirra 25 þúsunda sem eru komin með stafræn ökuskírteini. Eggert Jóhannesson

„Æðið heldur bara áfram,“ segir Vigdís Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Stafræns Íslands. Um fjögurleytið í nótt höfðu 25.000 manns sótt sér stafræn ökuskírteini í símann, og að vonum nokkru fleiri þegar þetta er skrifað.

Ekki er von nema spurt sé hvers vegna tölfræði frá því um miðja nótt liggur fyrir en svarið við því er það að vaka þurfti yfir kerfinu í nótt, enda álagið slíkt. 25.000 eru meira en 10% þeirra sem hafa gilt ökuskírteini á Íslandi.

„Álagið var fyrst þannig að 1.100 manns voru inni á sömu sekúndu og fór svo upp í 2.200 manns um kvöldmatarleytið. Það var raunar hökt á þessu vegna álagsins meira og minna allan daginn í gær. Sem er jákvætt vandamál,“ segir Vigdís. „Það er mikil stemning í kringum þetta og vissum það alveg, að fólk væri spennt fyrir þessu, en áttum ekki alveg von á þessu.“

Úrræðið var kynnt um hádegisbilið í gær á blaðamannafundi, þar sem kom meðal annars fram að Ísland væri önnur þjóð heims til þess að bjóða upp á stafræn ökuskírteini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert