Huawei útilokað í Bretlandi

Bresk stjórnvöld hafa bannað fjarskiptafyrirtækjum í landinu að nota búnað frá kínverska fjarskiptafyrirtækinu Huawei við upp­bygg­ingu á 5G-neti í land­inu frá og með áramótum. Jafnframt verði að vera búið að skipta út öllum búnaði frá Huawei fyrir 2027. Stjórnendur Huawei eru ósátt við þessa ákvörðun Breta og hafa óskað eftir því að hún verði endurskoðuð.

Mörg ríki eru nú að skoða hvort útiloka eigi Huawei …
Mörg ríki eru nú að skoða hvort útiloka eigi Huawei frá 5G uppbyggingu. AFP

Tilkynnt var um bannið í hádeginu. Að sögn talsmanns Huawei í Bretlandi, Ed Brewster, segir bannið mikil vonbrigði og telur að bresk yfirvöld séu hér að bregðast við þrýstingi frá bandarískum yfirvöldum fremur en af öryggisástæðum. 

Oliver Dowden, sem fer með stafræn mál í ríkisstjórn Bretlands, kynnti þessa ákvörðun á breska þinginu í dag, þriðjudag. Ákvörðunin var tekin eftir fund ríkisstjórnarinnar með þjóðaröryggisráði landsins.

Íslensk stjórnvöld fylgjast með þróuninni hjá nágrannaþjóðum Íslands í tengslum við uppbyggingu 5G-nets og aðkomu kínverska fyrirtækisins Huawei, segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, í samtali við Morgunblaðið í liðinni viku.

„Afstaða okkar er skýr, að tekið skal tillit þjóðaröryggis við innleiðingu 5G hér á landi, það snýr ekki að neinum stökum aðila sérstaklega. Tæknin er þess eðlis að það er mjög eðlilegt að stíga varlega til jarðar,“ segir Guðlaugur.

Spurður hvort utanríkisráðuneytið þekki til þess að erlend ríki reyni að hafa áhrif á afstöðu íslenskra stjórnvalda í þessum málaflokki, sérstaklega Bandaríkin eða Kína, svarar hann: „Afstaða þessara ríkja er alveg skýr, liggur fyrir og er öllum ljós. En utanríkisráðuneytið lítur eingöngu til íslenskra hagsmuna og það skiptir afskaplega miklu máli í þessu máli, eins og öðrum, að líta til þjóðaröryggishagsmuna. Það er alltaf útgangspunktur okkar.“ Guðlaugur Þór áréttar vegna fréttar blaðsins í gær að hann hafi verið utan símasambands á fimmtudag og ekki getað svarað skilaboðum blaðsins af þeim sökum.

Frumvarp í haust

Gert er ráð fyrir að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp í haust er snýr að „heildarlöggjöf á fjarskiptasviði og þar er meðal annars fjallað um öryggismál varðandi farnet, það er að segja 5G, og sérstöku samstarfi komið á á milli utanríkis-, dómsmála-, samgöngu- eða fjarskiptaráðherra og forsætisráðuneytis um þau efni,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra í samtali við Morgunblaðið. Benti hann á að talsverður hluti af lagasetningu er næði til fjarskipta væri evrópskur og að Evrópusambandið hefði gefið út „sérstaka verkfærakistu sem er búist við að muni þróast nú á næstu mánuðum og misserum og við munum taka mið af því í okkar löggjöf“.

Í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins segir talsmaður framkvæmdastjórnar ESB að „verkfærakassinn“ sé niðurstaða samvinnu ríkja og netöryggisstofnunar sambandsins og feli í sér mögulegar mótvægisaðgerðir sem hægt er að grípa til í þeim tilgangi að draga úr áhættu sem getur fylgt uppbyggingu 5G innviða.

Þá hafa ríkin sem taka þátt í samstilltu átaki sambandsins skuldbundið sig til þess að innleiða mikilvægustu mótvægisaðgerðirnar og gera framkvæmdastjórninni grein fyrir áhrifum þess fyrir október.

Er spurt var um aðkomu Huawei svaraði talsmaðurinn: „Við höfum enga afstöðu til einstakra fyrirtækja. Við höfum reglur í ESB til að draga úr öryggisáhættu. Allir sem fara eftir þessum reglum geta verið á evrópskum markaði. Jafnframt hafa aðildarríki ESB rétt til að ákveða hvort útiloka fyrirtæki frá mörkuðum sínum af þjóðaröryggisástæðum.“

Oliver Dowden ráðherra stafrænna mála tilkynnti ákvörðun breskra yfirvalda í …
Oliver Dowden ráðherra stafrænna mála tilkynnti ákvörðun breskra yfirvalda í þinginu í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert