Hvítabjörninn allur eftir 80 ár

Hvítabjarnarstofninn gæti dáið út á næstu 80 árum
Hvítabjarnarstofninn gæti dáið út á næstu 80 árum AFP

Hvítabjörninn gæti dáið út vegna loftslagsbreytinga fyrir árið 2100, samkvæmt rannsókn sem birt var á mánudag. Lífsviðurværi bjarnarins er víða í mikilli hættu vegna bráðnunnar hafíss, en tímabilið sem björninn hefur til að veiða seli hefur styttst til muna. Þetta kemur fram í tímaritinu Nature Climate Change.

Í greininni segir að styttingar á veiðitímabili geta ollið minnkandi líkamsþyngd, sem gerir það erfiðara fyrir björninn að lifa af harðneskjulega vetra norðurslóða án matar.

Heimkynni þeirra bókstaflega að bráðna

Steven Armstrup, aðalfræðingur hjá Polar Bear International og einn höfunda greinarinnar, segir í samtali við AFP að „birnir þurfi að afbera lengri og lengri föstutímabil áður en ísinn frýs á ný og þeir geti haldið áfram að veiða.“

Að öllu óbreyttu reiknar rannsóknin með því að stofninn muni ekki lifa af næstu 80 árin vegna örra breytinga á norðurslóðum.

AFP

Þá sé reiknað með að yfirboðshitastig jarðar verði 3,3 gráðum hærra en það var við byrjun iðnbyltingar, en jafnvel þótt hækkunin verði aðeins 2,4 gráður, hálfri gráðu hærri en Parísarsáttmálinn gerir ráð fyrir, er líklegt að útrýming bjarnanna muni aðeins frestast.

Amstup segir ógnina ekki vera hlýnunina sjálfa, heldur er skortur á aðlögunarhæfni helsta vandamál hvítabjarnarins. „Ef hafís gæti haldist óbreyttur þegar hitastig hækkar gætu birnirnir spjarað sig,“ segir Amstup. „Vandamálið er að heimkynni þeirra er bókstaflega að bráðna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina