Framúrskarandi fræðimaður

Kjarval umkringdur verkum í sölunum við Sigtún 7 sem hann …
Kjarval umkringdur verkum í sölunum við Sigtún 7 sem hann hafði sem vinnustofur um árabil. Að baki árangri liggur þrotlaus vinna. Ólafur K. Magnússon

K. Anders Ericsson er sá fræðimaður, sem haft hefur einna mest áhrif á hugmyndir okkar um færni og færniþjálfun. Ericsson lést í júní og í tilefni af því fara Hermundur Sigmundsson og Viðar Halldórsson yfir framlag hans til fræðanna.

Hvað eiga skákmaðurinn Magnus Carlsen, golfarinn Rory McIlroy og tónskáldið Hildur Guðnadóttir sameiginlegt? Jú, þau hafa öll náð afburðaárangri á sínu sviði eftir að hafa stundað markvissa og fókuseraða þjálfun til lengri tíma, þjálfun sem hefur að einhverju leyti verið undir leiðgögn sérfræðinga á sviðinu.

Sá fræðimaður sem hefur haft hvað mest áhrif á hugmyndir okkar í samtímanum um færni og færniþjálfun, eins og þeirra afburða einstaklinga sem nefndir eru hér að ofan, er Svíinn K. Anders Ericsson. Ericsson, sem starfaði lengst af sem prófessor í sálfræði við Florida State-háskólann í Bandaríkjunum, setti fram kenninguna um markvissa og fókuseraða þjálfun (e. deliberate practice) sem hefur vakið gríðarlega athygli frá því hún var fyrst sett fram árið 1993. Fræðilegar tilvitnanir í fyrstu grein Ericsson um efnið er orðnar yfir 11.000 (en það merkir hve margar vísindagreinar hafa vitnað í rannsóknina), og samtals eru tilvitnanir í verk Ericsson í kringum 84.000 – þegar þetta er skrifað. Ýmsir dægurvísindaskríbentar, eins og Malcolm Gladwell, hafa svo gert kenningar Ericsson aðgengilegri almenningi, en margir þekkja hugmyndina um að til að einstaklingur nái afburðafærni á ákveðnu sviði þá þurfi hann að stunda markvissa þjálfun í yfir 10.000 klukkustundir.

Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði.
Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði. Kristinn Magnússon

K. Anders Ericsson lést hinn 17. júní síðastliðinn, 73 ára að aldri. Af því tilefni er við hæfi að fara hér stuttlega yfir framlag Ericsson til fræðanna og er þessum pistli ætlað að varpa ljósi á mikilvægi kenninga hans fyrir skilning okkar á því hvernig einstaklingar bæta færni sína í tilteknum athæfum.

Markviss og fókuseruð þjálfun

Ævistarf Ericsson hefur hjálpað okkur að átta okkur betur á því að til þess að einstaklingar nái ákveðinni færni og árangri á ákveðnu sviði þá sé það með markvissri og fókuseraðri þjálfun. Slík þjálfun hefur skýr markmið og krefst mikillar einbeitingar. Það er því ekki nóg fyrir einstakling að mæta bara á æfingu, til að hámarka framfarir, heldur þarf hann að mæta á æfingu til að æfa. Ericsson hefur einnig bent á að eftirfylgni og mat eru mikilvægir þættir til að hámarka árangur og því þarf að mæla framfarir og árangur reglulega og aðlaga áskoranir í þjálfun við stöðuna hverju sinni – en sá þáttur er einnig studdur af rannsóknum Mihaly Csikszentmihalyi sem hefur verið nefndur „faðir“ jákvæðrar sálfræði. Til þess að geta ákveðið hvað þarf að þjálfa og með hvaða hætti þá þarf því að liggja nákvæmlega fyrir hvar einstaklingurinn stendur miðað við þá færni/þekkingu sem unnið er með hverju sinni. Það skiptir því miklu máli í allri færniþjálfun að einstaklingar fái góða kennslu og leiðsögn og er hlutverk kennara, þjálfara eða annarra sérfræðinga því dýrmætt í þessu samhengi. Kenning Ericsson gengur jafnframt út á að til að einstaklingur nái framúrskarandi árangri á ákveðnu sviði þurfi hann að stunda markvissa og fókuseraða þjálfun í athæfinu, eins og hér hefur verið útlistað, til lengri tíma – og hefur stundum verið talað um 10.000 klukkustundir í því sambandi. Það má því segja að kenning Ericsson styðji hið fornkveðna; að æfingin skapi meistarann.

Æfingin skapar meistarann

Í bókinni Peak: How to master almost anything, tengir Ericsson kenningar sínar um markvissa og fókuseraða þjálfun saman við rannsóknir innan taugavísinda. Þar sýnir hann fram á að þegar einstaklingar þjálfa ákveðna færni þá styrkjast taugabrautir í heilanum (e. brain plasticity) sem bæta færni þeirra á tilteknu sviði við endurteknar æfingar í bland við sífellt vaxandi áskoranir. Með öðrum orðum, þá skapar þjálfun, nám og reynsla tengingar á milli taugafruma – taugafræðileg net (e. neural networks) sem við getum kallað snaga – sem eru undirstaðan fyrir færni og hæfileika okkar á ákveðnum sviðum. Þegar einstaklingar þjálfa ákveðna færni þá styrkjast þær taugabrautir í heilanum sérstaklega sem tengjast þessum ákveðna snaga, en ekki endilega þær taugabrautir og sú færni sem tengist öðrum snögum. Þannig sýna rannsóknir til dæmis að þó að stórmeistarar í skák hafi þjálfað með sér mikla færni í skák þá hafa þeir ekki endilega mikla færni í stærðfræði, þó að stærðfræði byggi einnig á rökhugsun líkt og skák, nema þeir hafi einnig þjálfað stærðfræðilega færni sérstaklega. Með markvissri og fókuseraðri þjálfun þá geta einstaklingar því náð mikilli færni á tilteknu sviði en sú færni yfirfærist ekki endilega yfir á önnur eða svipuð svið.

Viðar Halldórsson prófessor í félagsfræði.
Viðar Halldórsson prófessor í félagsfræði. Árni Sæberg

Kenning Ericsson í bland við rannsóknir í taugavísindum er því undirstaðan fyrir skilning okkar á almennum forsendum færniþjálfunar og varpa jafnframt ljósi á þróun afburða einstaklinga. Til dæmis þá var Magnus Carlsen heimsmeistari í skák hvort í senn búinn að stunda yfir 10.000 klukkustundir af markvissri og fókuseraðri þjálfun í skák þegar hann var einungis 16 ára. Einnig naut Carlsen leiðsagnar skáksnillinga eins og Simen Agdestein og Garry Kasparov á leið sinni á toppinn.

Mikilvæg kenning

Kenning Ericsson er mikilvæg fyrir alla sem vinna að því að bæta færni og stuðla að þekkingarþróun fólks á öllum aldri; frá börnum til eldra fólks, frá byrjendum til þeirra sem eru framúrskarandi. Kostur kenningarinnar er einnig að hún er jákvæð og hvetjandi og ýtir hún undir gróskuhugarfar (e. growth mindset), þ.e. að einstaklingar hafa trú á að þeir geti bætt færni sína, í stað fastmótaðs hugarfars (e. fixed mindset), þar sem einstaklingar hafa síður þá trú. Kenningin gefur þannig til kynna að það hafa allir möguleika á að bæta færni sína umtalsvert á því sviði sem þeir kjósa sér, svo framarlega sem þeir eru tilbúnir til að leggja á sig mikla vinnu og stunda markvissa og fókuseraða þjálfun í athæfinu til lengri tíma. Svigrúm einstaklinga til að bæta færni sína er því jafnan meira en þeir gera sér grein fyrir. Rannsóknir á færniþjálfun og árangri segja þó ekki endilega að allir þeir sem stundi yfir 10.000 klukkustundir af markvissri og fókuseraðri þjálfun geti komst í allra fremstu röð á sínu sviði, eins og stundum er haldið fram, heldur ræðst afburðaárangur af flóknu samspili mun fleiri þátta sem snúa að erfðum, hugarfari og umhverfi einstaklinga. Rannsóknirnar segja okkur öllu frekar að allir geta bætt færni sína og árangur umtalsvert með markvissri og fókuseraðri þjálfun og er slík þjálfun grunnur að framförum einstaklinga á ólíkum sviðum, eins og í íþróttum, listum og bóknámi, svo einhver séu nefnd. Framlag Ericsson fyrir aukinn skilning okkar á færniþjálfun og árangri hefur því reynst veigamikið, bæði fyrir fræðasamfélagið sem og fyrir allt það starf sem fer fram á vettvangi á víð og dreif um samfélagið.

Þess má að lokum geta að Ericsson skrifaði bókarkafla í bók Hermundar Sigmundssonar, Ekspertise. Utvikling av kunnskap og ferdigheter, sem gefin var út í Noregi fyrr á þessu ári þar sem fjallað er um ýmsar hliðar færniþjálfunar og árangurs. Sá kafli kann að vera síðasta birta framlag K. Anders Ericsson til fræðanna; lokapunkturinn á veigamiklu ævistarfi hins merka og áhrifamikla fræðimanns.

Hermundur Sigmundsson er prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði og Viðar Halldórsson er prófessor í félagsfræði.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »