Litlar upplýsingar komnar fram sólarhring síðar

Vegna bilunar netþjónustunnar geta notendur heldur ekki búið til nýjar …
Vegna bilunar netþjónustunnar geta notendur heldur ekki búið til nýjar hlaupa- eða hjólaleiðir í búnaði sínum. Ljósmynd/Garmin

Í gærmorgun urðu notendur búnaðar frá tæknifyrirtækinu Garmin þess áskynja að ýmsar þjónustur sem fyrirtækið býður upp á virkuðu ekki sem skyldi. Þannig kom fljótlega í ljós að fyrirtækið hafði þurft að loka símaveri sínu, heimasíðu og ýmsum þjónustum á netinu.

Nú rúmlega sólarhring síðar er enn litlar upplýsingar að finna um ástæðu þess að kerfi fyrirtækisins eru úti, en fjölmiðlar hafa meðal annars vísað til þess að starfsmenn fyrirtækisins hafi talað um að árás hafi verið gerð á kerfi þess.

Mbl.is leitaði upplýsinga hjá umboðsaðila og Samgöngustofu um áhrif af því að netþjónusta Garmin lægi niðri og hvort það kæmi til dæmis niður á öryggi flugs eða siglinga.

Hvað eru Garmin-tæki og hvaða þjónusta er úti?

Garmin framleiðir og þjónustar ýmiss konar vörur sem notast við GPS-staðsetningarkerfi bandarískra yfirvalda. Er fyrirtækið leiðandi á þessum markaði og í vörulínu þess er meðal annars GPS-tæki fyrir bíla, skip, flugvélar, sem og alls konar íþróttatölvur, eins og fyrir hjólreiðar og úr fyrir sund eða hlaup.

Grunnvirkni þeirra tækja sem Garmin framleiðir er óbreytt þrátt fyrir að netþjónusta Garmin liggi niðri. Það þýðir að hægt er að treysta á að tækin gefi upp staðsetningu eins og áður og fyrir íþróttafólk safna úrin og tölvurnar upplýsingum um æfingar. Hins vegar liggur Garmin connect-þjónusta fyrirtækisins niðri og það þýðir að þar safnast ekki æfingaupplýsingarnar og þá eru upplýsingarnar ekki heldur sendar áfram á kerfi þriðja aðila, en það á meðal annars við um Strava, sem nýtur mestra vinsælda af slíkum forritum.

Telja að tölvuþrjótar hafi komið fyrir gíslatökuforriti

Tæknifréttasíðan ZDNet greindi í gær frá því að ástæðan fyrir því að kerfi fyrirtækisins séu úti sé svokallað gíslatökuforrit (e. ransomware), en þá koma tölvuþrjótar veiru fyrir í kerfum einstaklinga eða fyrirtækja sem tekur yfir stjórn þeirra og krefur notendur um lausnargjald.

Enn hefur þó ekkert komið út frá Garmin, annað en tvö stutt skilaboð á Twitter um hádegið í gær. Þar kom í raun lítið annað fram en að kerfin væru úti og fyrirtækið væri að skoða málið. Þá væri símaver, tölvupóstur og netspjall úti og unnið væri að lausn mála. Síðan þá hafa talsmenn fyrirtækisins ekkert gefið út um stöðu mála og fleiri og fleiri fjölmiðlar hafa velt því fyrir sér hvort rétt geti verið að tölvuþrjótar hafi rænt yfirráðum yfir tölvukerfum Garmin.

Litlar upplýsingar borist til Garmin á Íslandi

Ríkarður Sigmundsson, framkvæmdastjóri Garmin-búðarinnar, sem er umboðsaðili Garmin hér á landi, segir við mbl.is að þar á bæ hafi menn ekki fengið nánari skýringar frá Garmin aðrar en að unnið sé að því að koma kerfunum aftur í lag. Segir hann jafnframt að Garmin hafi beint því til þeirra að ekki væri hægt að lofa neinu með tímasetningar.

Lítil áhrif á almenna notkun, en óþægindi fyrir suma

Ríkarður segir að þessi staða ætti þó ekki að hafa nein áhrif á almenna notkun Garmin-tækja, hvort sem það eru úr, göngutæki, leiðsögutæki í bílum, skipum eða flugvélum. Það séu allt sjálfstæð tæki sem reiði sig ekki á neitt utanaðkomandi til að virka nema GPS-gervihnettina sem ekki séu reknir af fyrirtækinu.

Hann tekur þó fram að þetta hafi óþægindi í för með sér fyrir þá sem notist við úr og aðrar æfingatölvur. Hvorki sé hægt að lesa árangurinn eftir æfingar, skoða hann í símum eða tölvu og ekki virki að sækja gögn þráðlaust, hvort sem það séu hlaupa- eða hjólaleiðir, og lesa inn í tækið. Aftur á móti er hægt að tengja þessi tæki við tölvur með USB-tengi og lesa leiðir í tækin frá öðrum síðum en Garmin og einnig með hugbúnaði sem er á tölvunni og notast ekki við nettengingu, til dæmis Basecamp-forritið frá Garmin.

Ríkarður Sigmundsson hjá Garmin segir þetta ekki hafa áhrif á …
Ríkarður Sigmundsson hjá Garmin segir þetta ekki hafa áhrif á almenna notkun, en óþægindi fyrir hluta notenda. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Ekki reiknað með áhrifum á flug

Frá Samgöngustofu fengust þær upplýsingar að stofnunin hefði skoðað möguleg áhrif af því að kerfin liggi niðri, t.d. á flug og sjóferðir. „Það hefur verið skoðað en engar tilkynningar hafa borist um slíkt frá Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) og engar tilkynningar frá flugrekendum um vandamál, en vandamál sem hafa áhrif á flugöryggi eru tilkynningarskyld. Ekki er reiknað með að þetta hafi áhrif á hæfni til flugs hér á landi,“ segir í svari stofnunarinnar.

Fyrir atvinnuflug þarf að uppfæra tæki sem þessi, hvort sem þau koma frá Garmin eða öðrum framleiðendum, sem notast við gagnagrunna. Samgöngustofa segir að flugfélög eigi að hafa verkferla til að meta hugsanleg vandamál við notkun leiðsögubúnaðar, en eins og fyrr segir er ekki gert ráð fyrir að þetta hafi áhrif á flug hér.

Ásgeir Örn Þorsteinsson, sölu- og markaðsstjóri Ernis, staðfestir þetta einnig við mbl.is, en félagið er meðal þeirra sem notast við tæki frá Garmin. Segir hann að þótt netþjónusta Garmin sé úti hafi það engin áhrif á flug hjá félaginu, enda sé ekki notast við gagnagrunn frá þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert