Garmin sagt krafið um 10 milljóna lausnargjald

Leiðsögutækni Garmin er einnig notuð í bifreiðum.
Leiðsögutækni Garmin er einnig notuð í bifreiðum. www.driveuconnect.com

Talið er að verið sé að krefja tæknirisann Garmin um 10 milljónir bandaríkjadala í lausnargjald í kjölfar tölvuárásar sem hefur valdið því að netþjónar þess hafa legið niðri í rúmlega tvo daga.

Um þetta er fjallað hjá tímaritinu Forbes, en þar segir að tölvuárás hafi verið gerð á netþjóna leiðsagnarfyrirtækisins snemma á fimmtudagsmorgun, með þeim afleiðingum að notendur búnaðarins hafa ekki getað skráð æfingar sínar og flugmenn hafa ekki getað sótt nýjar flugleiðir fyrir flugleiðakerfi sín, meðal annarra vandamála.

Þar að auki liggja samskiptakerfi fyrirtækisins niðri og hefur það því ekki getað svarað fyrirspurnum áhyggjufullra, og eflaust nokkuð ergilegra viðskiptavina sinna.

Starfsfólk Garmin hefur sagt að netþjónar fyrirtækisins hafi verið teknir niður af gagnagíslatökuforritinu WastedLocker. Garmin sem slíkt hefur hins vegar lítið gefið út um ástæður þess að netþjónar fyrirtækisins liggja niðri.

mbl.is