Segir persónuupplýsingar notenda vera öruggar

Garmin segir ekkert benda til þess að það sem olli …
Garmin segir ekkert benda til þess að það sem olli sambandsleysinu hafi haft áhrif á persónuupplýsingar notenda. Ljósmynd/Garmin

Tæknirisinn Garmin, sem hefur verið í vandræðum með netþjónustu sína síðan á fimmtudaginn þegar hún fór óvænt úr sambandi, gaf það út í dag að ekkert bendi til þess  að persónuupplýsingum notenda hafi verið stolið þrátt fyrir að sögusagnir séu um að brotist hafi verið inn í tölvukerfi Garmin.

„Garmin hefur ekki upplýsingar um að þetta sambandsleysi (e. outage) hafi haft áhrif á gögnin ykkar, þar á meðal gögn um hreyfingu eða aðrar persónuupplýsingar,“ sagði í yfirlýsingu á vefsíðu Garmin.

Engin skýring gefin upp

Þrátt fyrir að Garmin Connect sé óaðgengilegt sem stendur segir fyrirtækið að upplýsingar um hreyfingu og líðan notenda séu vistaðar á Garmin-tækin og að þau muni hlaðast upp í Garmin Connect-appið þegar það kemst aftur í gagnið.

Garmin hefur ekkert gefið upp um ástæður þess að netþjónusta fyrirtækisins virki ekki en talið er að verið sé að krefja tækn­iris­ann Garmin um 10 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala í lausn­ar­gjald. Netþjónum Garmin sé haldið í gíslinu af þar til gerðu forriti (e. ransomware) þangað til að fyrirtækið borgar.

Starfsmenn hafi staðfest árásina

Þá hefur forritið Garmin Pilot, sem notað er af flugmönnum til að skipuleggja flugleiðir, verið tekið úr sambandi sem og flyGarmin flugleiðagagnagrunnurinn. Bilunin, eða árásin, hefur einnig haft áhrif á samskiptakerfi Garmin og því er ekki hægt að hringja í þjónustver fyrirtækisins, senda tölvupóst eða tala við starfsmenn á vefsíðu Garmin.

Vefsíðan ZDnet greindi frá því að skömmu eftir að sambandsleysisins varð vart á fimmtudaginn hafi nokkrir starfsmenn Garmin tjáð sig um það á samfélagsmiðlum og staðfest að um gíslatökuárás á netþjóna fyrirtækisins væri að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert