Netþjónusta Garmin að komast í samt lag

Netþjónusta Garmin er að komast í samt lag eftir tölvuárás sem gerð var á fyrirtækið á fimmtudaginn. Ekki er komin upp full virkni hjá öllum notendum Garmin, en vonast er eftir því að vandinn verði leystur fyrir lok vikunnar. Þetta segir Ríkarður Sigmundsson, framkvæmdastjóri Garmin-búðarinnar, sem er umboðsaðili Garmin hér á landi, í samtali við mbl.is.

Tugir þúsunda Íslendinga nota Garmin-úr, en fyrirtækið framleiðir og þjónustar meðal annars GPS-tæki fyrir bíla, skip og flugvélar. Þótt netþjónusta Garmin hafi legið niðri segir Ríkarður að grunnþjónusta þeirra tækja sem Garmin framleiðir hafi haldist óbreytt. Garmin-tæki séu sjálfstæð tæki sem þurfi ekki nettengingu til að virka.

Samkvæmt upplýsingum frá Garmin bendir ekkert til þess að eldri gögn notenda hafi tapast eða að átt hafi verið við þau.

Þá hafi árásin ekki haft nein áhrif á þjónustu tengda Garmin Pay, en að sögn Ríkarðs byggir þjónustan á vottaðri tækni sem er samþykkt af bönkum og greiðslukortafyrirtækjum, og ekkert bendir til að tölvuþrjótar hafi komist yfir kortaupplýsingar notenda.

Mikið traust viðskiptavina

Ríkarður segir að viðskiptavinir hafi mestmegnis verið skilningsríkir, þótt mikið álag hafi verið á síma Garmin-búðarinnar. Hann segir þó að ekki hafi verið neitt fjárhagslegt tjón á starfsemi fyrirtækisins.

„Það er mjög gaman að segja frá því að traustið er það mikið hérna hjá okkur að það virðist ekki hafa haft áhrif á sölu,“ segir Ríkarður.

Ekki borist frekari upplýsingar

Garmin hefur lítið tjáð sig um málið, en fyrirtækið hefur ekki veitt neinar upplýsingar síðan á mánudaginn, þegar það staðfesti að um tölvuárás var að ræða. Ekkert hefur verið staðfest um eðli árásarinnar eða hvernig vandamálið var leyst.

Mbl.is greindi frá því um helgina að talið væri að tölvuþrjótarnir krefðust lausnargjalds í kjölfar tölvuárásarinnar. Einnig greindi BBC og Forbes frá því máli.

Ríkarður segir að hann hafi heldur ekki fengið neinar frekari upplýsingar frá fyrirtækinu, nema að stjórnendur vilji rannsaka málið nánar áður en þeir lýsa einhverju yfir sjálfir. Nokkur leynd sé yfir málinu í höfuðstöðvunum.

mbl.is